142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[12:14]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var áhugaverð ræða og ég þakka hv. þingmanni fyrir þær upplýsingar sem þar komu fram. Mikilvægt er að þá er það staðfest að tilgangurinn var ekki sá eða grunnhugsunin að búa til ópólitískari stjórn. Ég vil aftur á móti benda á, virðulegi forseti, að umræðan í samfélaginu frá því að þetta frumvarp kom fram hefur fyrst og síðast snúist um þann þátt málsins. Það skiptir máli að þetta hafi komið fram hjá hv. þingmanni.

Í öðru lagi varðandi hina breiðu aðkomu. Það er munurinn á valnefndinni, hinni fimm manna valnefnd, og Alþingi Íslendinga. Á Alþingi Íslendinga sitja 63 hv. þingmenn sem allir hafa þurft að standa frammi fyrir kjósendum og fá umboð frá þeim. Í þessum sal sitja einstaklingar sem koma úr mörgum áttum með mjög mismunandi reynslu, mismunandi sýn á þjóðfélagið, mismunandi menntabakgrunn og kunnáttu. Það er þessi hópur sem síðan velur stjórnarmennina. Til að leggja þetta enn þá skýrar upp má kannski líta á Alþingi Íslendinga sem einhvers konar valnefnd og í staðinn fyrir fimm manna valnefnd sitji í henni 63 alþingismenn.

Virðulegi forseti. Hvað varðar samráðið ber að hafa í huga að hér er einungis verið að viðhalda því fyrirkomulagi sem áður hefur verið, með þeirri breytingu þó að sjö manns verða í stjórninni. Það gerir einmitt verkefni Alþingis auðveldara, að tryggja að inn komi fólk sem hefur breiðan bakgrunn. Ég tel að miðað við það sem fram hefur komið hjá hv. þingmanni um (Forseti hringir.) að ekki séu áhyggjur af því að þetta sé pólitískara val á stjórn en valnefndarvalið, (Forseti hringir.) þurfi heldur ekki að hafa áhyggjur af því fyrirkomulagi (Forseti hringir.) sem er um störf stjórnarinnar.