142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[12:16]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég var að reyna að útskýra í ræðu minni eins og hæstv. ráðherra er vel ljóst að faglegt og pólitískt þurfa ekki að vera andstæður í sjálfu sér. Það breytir því ekki og hæstv. ráðherra er það vel ljóst líka að munur er á því að skipa stjórn með fulltrúa starfsmanna með breiðri aðkomu fólks úr ólíkum geirum eða að setja stjórnina alfarið undir hið atvinnupólitíska vald á Alþingi. Það er munur á þessu, hæstv. ráðherra. Þar af leiðandi er eðlilegt að viðbrögð margra séu að tala um að hér sé verið að færa Ríkisútvarpið aftur að öllu leyti undir pólitískt vald því að það er rétt.

Það er verið að færa það að öllu leyti undir pólitískt vald. Það er munurinn á leiðinni í gildandi lögum og þeirri leið sem hæstv. ráðherra leggur til. Önnur leiðin er byggð á breiðari grunni — hún er ekki ópólitísk, um það snýst ekki málið. Hin leiðin sem hæstv. ráðherra leggur til er alpólitísk og fer eingöngu fram í gegnum þessa samkomu atvinnustjórnmálamanna á Alþingi, sem ég geri ekkert lítið úr og eru lýðræðislega kjörnir fulltrúar, algjörlega sammála hæstv. ráðherra um það. Hér er eigi að síður grundvallarmunur á og að sjálfsögðu er eðlilegt að við ræðum það að verið er að færa Ríkisútvarpið aftur undir pólitískt vald eingöngu í staðinn fyrir að hafa þá breiðu aðkomu, sem ég lýsti áðan, í stjórn.