142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[12:28]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sú umræða sem hv. þingmaður vekur hér snýr væntanlega að því fyrirkomulagi sem verið hefur á stjórn Ríkisútvarpsins og mun lengur en með hinum nýju lögum sem voru samþykkt fyrir fjórum mánuðum. Það er því kannski stærri umræða og snýr almennt að því hvernig við skipum stjórnir opinberra hlutafélaga. Það er mín skoðun að þá löggjöf þurfi að skoða sérstaklega og skerpa betur á og skilgreina hlutverk opinberra hlutafélaga.

Að öðru leyti vil ég ítreka þau sjónarmið sem ég hef hér lagt á borð sem snúast um það — og eru svar við gagnrýni sem verið hefur uppi í samfélaginu, sem er eðlilegt að við hv. alþingismenn hlustum eftir og reynum að finna leiðir til að koma til móts við. Sú gagnrýni hefur einmitt snúist um það að mikilvægt sé að stjórn hafi skýrt skilgreint hlutverk — þess vegna var því breytt í lögum sem voru samþykkt fyrir fjórum mánuðum — og að stjórn endurspegli bæði ákveðið hæfi og líka þessa breiðu aðkomu sem við vildum tryggja með þeim hætti sem allir flokkar á Alþingi nema Sjálfstæðisflokkurinn greiddu atkvæði sitt fyrir fjórum mánuðum. Um það snýst þessi breyting en kannski ekki um það sem hv. þingmaður varpaði hér fram í andsvari og varðar mun stærra mál sem snýr að ráðherraábyrgð á opinberum hlutafélögum. Við getum kannski tekið sérstaka umræðu um það síðar.