142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[12:39]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef skilið umræðuna hér til þessa nokkuð á þann veg að ekki hafi verið lagt upp með þetta fyrirkomulag til að gera einhverjar gjörbreytingar á hinum pólitíska þætti málsins ef svo má segja. Ég skildi það í ummælum hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur að fyrst og fremst hafi verið undir að tryggja að fram færi einhvers konar samtal um að velja hverjir þetta yrðu. Gott og vel.

Það kann vel að vera að slík samtöl geti gengið upp og skilað góðu af sér, en það er engin trygging fyrir því í þessari valnefnd að svo verði. Þrír valdir af Alþingi, einn af Bandalagi íslenskra listamanna og einn frá samráðsvettvangi háskólanna. Þessi samsetning er engin trygging fyrir því t.d. að þar verði ekki mikið ósætti og að valið verði ekki „með gamaldags hætti“ eins og talað er um að fulltrúar þingsins tilnefni einhverja eða leggi áherslu á að einhverjir komi inn sem hafi einhvers konar pólitískt yfirbragð. Það kann vel að vera að þeir sem sitja í nefndinni frá Bandalagi íslenskra listamanna leggi mikla áherslu á að einhver sem komi beint úr þeirra röðum fari inn, til þess jafnvel að gæta hagsmuna þeirra o.s.frv. Fyrir því að slíkt gerist ekki höfum við enga tryggingu.

Ég ítreka enn og aftur að þegar ég sá hvaða tilnefningar höfðu komið, um fyrrverandi hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur og Ólaf Harðarson frá Háskóla Íslands, leist mér mjög vel á þetta fólk, en það er engin trygging um það hvað gerist í framtíðinni.

Enn og aftur, virðulegi forseti. Mér finnst skjóta svolítið skökku við að tala um Alþingi eins og hv. þm. Guðbjartur Hannesson gerði hér, að þetta væri einhvers konar gamaldags bitlingafyrirkomulag þegar æðsta stofnun landsins, Alþingi Íslendinga, velur í stjórn þessarar mikilvægu stofnunar, Ríkisútvarpsins. Það er engin bitlingapólitík þar að baki. Menn eiga ekki að tala þannig gagnvart þinginu. Þetta er mikilvægt verkefni sem Alþingi tekur alvarlega. Með því að fjölga í stjórninni upp í sjö er einmitt verið að auka líkurnar á því að þetta sé fjölbreyttur hópur með ólíkan bakgrunn (Forseti hringir.) sem tryggi að öll þau sjónarmið nái fram að ganga um samsetningu stjórnarinnar sem menn hafa rætt hér um.