142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[12:41]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra segir: Það er engin trygging fyrir því að breytingin muni leiða til ákveðinna hluta. Ég tek undir með honum með það. En þegar menn hafa fengið athugasemdir við ákveðið form aftur í tímann, af hverju þá ekki að breyta því? Við höfum rætt það almennt á undanförnum mánuðum, missirum og árum að breyta því að vera með beint val af Alþingi sem eru bara tilnefningar. Það hefur sætt gagnrýni eins og ég nefndi, þó að í því felist engin fullyrðing eða ábending um eitthvert misferli. Það er samt afar óæskilegt ef það ríkir tortryggni í garð Ríkisútvarpsins um að þar sé verið að beita einhverjum pólitískum áhrifum. Af hverju förum við ekki fram á við og prófum breytinguna og endurmetum hana síðan að fenginni reynslu í staðinn fyrir að sækja í eitthvert ímyndað öryggi og fara aftur í tímann í fyrirkomulag sem almennt hefur verið mikil óánægja með? Það er það sem ég skil ekki.

Ég gagnrýndi Alþingi. Ég segi: Ég biðst undan því sem þingmaður að bera ábyrgð á þessu, að þetta sé kosningamál komi til kosninga, þannig virki lýðræðið, og ég verði metinn af því hvaða fulltrúa Sjálfstæðisflokkurinn tilnefnir í stjórn Ríkisútvarpsins. Ég get alveg skilið ráðherraábyrgðina, en það er ekki þannig að við sitjum hér sextíu og þrjú og veljum þessa fulltrúa. Það hefur aldrei verið þannig og mun aldrei verða þannig enda held ég að hugmyndin sé ekki sú heldur er um að ræða tilnefningar sem er raðað saman. Ekki situr Framsóknarflokkurinn og segir: Við viljum ekki fá þennan fulltrúa frá Sjálfstæðisflokknum og öfugt. Meiri hlutinn myndast einhvern veginn og síðan koma hinir. Og hér hefur verið bent á að það geta orðið vandræði með kynjahlutföll og þá þarf hugsanlega að fara í samninga eftir á með það og aðrar kröfur sem við viljum að séu uppfylltar við skipun svona stjórnar.

Þess vegna var farið í að leita að nýrri lausn og niðurstaðan var þessi valnefnd. Hún er kannski ekkert (Forseti hringir.) endilega réttasta og einasta og besta lausnin, en prófum hana a.m.k. (Forseti hringir.) áður en við köstum henni til baka.