142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[12:46]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér heyrist á þessari orðræðu á milli okkar í andsvörum eftir framsögu málsins að við séum einlæglega ósammála um þetta mál. Hæstv. ráðherra segir gjarnan í fyrstu persónu: „Ég tel og þess vegna á þetta …“ Það er kannski einmitt það sem við erum að ræða um. Við þurfum að losna við það að við séum að stjórna þannig að skoðanir okkar sem einstaklinga, þegar við komumst í valdastöðu, ráði málum. (Menntmrh.: Er það ekki þingið sem ákveður það?) Auðvitað verður það þingið sem ræður þessu. Þetta er auðvitað lýðræðislega lagt fram en þess vegna sagði ég að á þeim tíma sem við höfum á sumarþingi finnst mér mikil tilætlun að þetta mál fari í gegn í skyndi af því að það er afstaða hæstv. menntamálaráðherra að það eigi að breyta þessu, jafnvel í andstöðu við Framsóknarflokkinn sem er nýbúinn að samþykkja hitt fyrirkomulagið. (Menntmrh.: Þeir eru búnir að samþykkja.) Þá eru þeir búnir að skipta um skoðun. Það væri út af fyrir sig spennandi að heyra innlegg þeirra í umræðuna, en þeir virðast ekki ætla að taka þátt í henni, þeir hafa þá kokgleypt þetta og ákveðið að skipta um skoðun frá því sem var fyrir fjórum mánuðum. Ég veit svo sem ekkert hvernig þau skipti hafa farið fram eða hvaða kaupmennska hefur átt sér stað í sambandi við það.

Ég lýsi bara yfir vonbrigðum með að tíma þingsins skuli vera eytt í þetta núna miðað við orðræðu hæstv. ráðherra á sínum tíma og ég skil ekki af hverju menn óttast að taka skrefið lengra. Það koma eflaust fram einhverjir gallar á nýja forminu, en maður hefur gjarnan þá reglu þegar verið er að vinna að breytingum að byrja ekki á að hopa heldur reyna að sníða vankantana af og stefna áfram til framtíðar. Ég hélt að ríkisstjórnin ætlaði að gera það, en kannski kemur alltaf betur og betur í ljós að hún horfir frekar aftur en fram.