142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

staða þjóðmenningar og menningarmála almennt í stjórnskipuninni.

[13:31]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Í stefnuyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnar segir, raunar strax í inngangi yfirlýsingarinnar, með leyfi forseta:

„Íslensk þjóðmenning verður í hávegum höfð, að henni hlúð og hún efld. Áhersla verður lögð á málvernd, vernd sögulegra minja og skráningu Íslandssögunnar, auk rannsókna og fræðslu. Ríkisstjórnin mun vinna að því að auka virðingu fyrir merkri sögu landsins, menningu þess og tungumálinu, innan lands sem utan.“

Umræða um slíka þjóðmenningu er annars ekki mikið fyrirferðarmeiri í plagginu, ekki einu sinni undir kaflaheitinu Mennta- og menningarmál, sem kemur síðar fyrir. En það sem ég sakna nokkuð í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er að hugtakið þjóðmenning er ekki skilgreint, ekki hvað fellur innan þess eða hvernig sitjandi ríkisstjórn skilur það. Það væri mjög þarft að fá þá skilgreiningu fram og hvaða markmiðum núverandi hæstv. ríkisstjórn telur það þjóna að færa hluta menningarmála til og skella á hann þessu forskeyti, þjóð-. Ég veit ekki hvort sú skilgreining er til en mikilvægt er að fá fram skilning hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra á hugtakinu.

Sama má segja um 2. mgr. í stjórnarsáttmálanum þar sem rætt er um Íslandssöguna en þar velti ég því fyrir mér hvort jafnvel sé verið að grauta saman liðnum atburðum og hinni sögulegu hefð, sem er auðvitað fyrst og fremst til í tungumálinu, hún getur verið hefðbundin en einföld. En þriðji skilningurinn sem ég velti fyrir mér hvort sé fyrir hendi þegar við ræðum um að áhersla verði lögð á skráningu Íslandssögunnar eru rannsóknir og mat sagnfræðinga á hinu sögulega samhengi, sem er grundvöllur bæði á atburðinum og frásagnarhefðinni en hljóta eðli máls samkvæmt að skila mörgum sögum en ekki Íslandssögu. Mér þætti vænt um að hæstv. menningarmálaráðherra útskýrði fyrir okkur hvernig nákvæmlega þessari áherslu verður háttað.

Áhersla ríkisstjórnarinnar í sáttmála sínum um íslenska þjóðmenningu, sem á að hafa í hávegum, hefur vakið nokkra athygli og ekki síður sá forsetaúrskurður sem birtur var við stjórnarmyndun þann 24. maí þar sem tilgreind eru verkefni einstakra ráðuneyta og sagt að málefni þjóðmenningar færist frá mennta- og menningarmálaráðuneyti til forsætisráðuneytis. Þessi verkefni eru: Vernd sögulegrar og menningartengdrar byggðar og umhverfis- og skipulagsmál því tengd, vernd þjóðargersema, minjasöfn, fornleifar, húsafriðun, varðveisla menningararfsins, Minjastofnun Íslands, örnefni, bæjarnöfn, Stofnun Árna Magnússonar og örnefnanefnd.

Listinn vekur líka upp spurningar en það hefur verið skilningur margra að ólíkir þættir í menningunni hafi samverkandi áhrif þannig að uppgötvanir til að mynda í fornleifafræði eða framfarir í húsavernd hafi áhrif á nýsköpun í myndlist eða bókmenntum þannig að rannsóknir, söfnin, varðveisla, miðlun og nýsköpun haldist í raun í hendur.

Maður veltir því fyrir sér hvað býr nákvæmlega að baki þeirri ákvörðun að leggja þá aðra áherslu á þessa málaflokka sem færðir eru á milli ráðuneyta. Málefni íslenskrar tungu hins vegar, sem ég hefði nú talið að teldust líklega til þjóðmenningar, eru ekki nefnd í sáttmálanum. Hugsanlega hefur þótt erfitt að slíta íslenska tungu frá skólakerfinu. En um leið eru færðar til heilu stofnanirnar eins og Stofnun Árna Magnússonar, sem er auðvitað háskólastofnun og sinnir fyrst og fremst rannsóknum í nánu samstarfi við háskólana.

Hæstv. menningarmálaráðherra upplýsir okkur væntanlega um skilgreininguna á eftir, en ég velti fyrir mér hvað valdi því að þessi verkefni eru flutt en ekki einhver önnur, eins og til að mynda íslensk tunga. En það er þó fleira sem verður snúið og ég hefði áhuga á að heyra skilning ráðherrans á, eins og til að mynda safnaráð sem fjallar auðvitað bæði um málefni minjasafna og listasafna sem heyra væntanlega undir hæstv. menningarmálaráðherra. Ég velti því fyrir mér hvernig nákvæmlega starfsemi safnaráðs verður háttað.

Mig langar að fá það fram hér hvernig staðið var að undirbúningi svokallaðra þjóðmenningarstofnana frá mennta- og menningarmálaráðuneyti til forsætisráðuneytis, hvort forstöðumenn þessara stofnana voru hafðir með í ráðum. Hvaða skilgreining á þjóðmenningu var höfð til grundvallar þegar ákveðið var hvaða málaflokkar og stofnanir teldust vera þjóðmenningarstofnanir eða málaflokkar, ólíkt öðrum eins og íslenskri tungu?

Mig langar að inna hæstv. ráðherra eftir því hvort starfsfólk og sérfræðingar menningarmálaráðuneytisins flytjist með málaflokkunum og ég velti því líka fyrir mér hvort þessar breytingar séu vel til þess fallnar að bæta stjórnsýslu og auka gagnsæi í málaflokknum. Að lokum er ég mjög áhugasöm að heyra hvernig áherslu á skráningu Íslandssögunnar verður náð fram.