142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

staða þjóðmenningar og menningarmála almennt í stjórnskipuninni.

[13:36]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að vekja athygli á þessu máli og fyrir ræðuna. Þetta eru auðvitað eðli málsins samkvæmt frekar flókin hugtök, það segir sig sjálft. Af því að sérstaklega var spurt um Íslandssöguna og skráningu hennar tek ég heils hugar undir hugleiðingar hv. þingmanns varðandi eðli söguritunar, hvað sagan er o.s.frv. Ég hef lengi hugleitt það mál og hreyfði fyrir nokkrum árum meðal annars þeirri hugmynd að það væri löngu orðið tímabært að við mundum gera verulegt átak í gerð t.d. myndræns kennsluefnis um Íslandssöguna til þess að hægt væri að nota það í grunnskólum og framhaldsskólum landsins eða jafnvel líka setja það í almenna sýningu eftir því sem við á.

Þegar menn velta fyrir sér hvað er átt við með skráningu Íslandssögunnar er það ekki eitthvert stórkostlegt átak ríkisstjórnarinnar um einhverja nýja sagnfræði, langt í frá. Ég held að þeir tímar séu liðnir að t.d. á stóli menntamálaráðherra sitji einstaklingur sem taki sig til og skrifi sjálfur Íslandssöguna, en ég tek þetta sem dæmi varðandi nýja framsetningu í nýjum miðlum hvað varðar Íslandssöguna.

Þá kem ég nú að stóra þættinum sem eru þjóðmenningarmálin. Þá er rétt að hafa það í huga að þegar stjórnarráðslögunum var breytt á þinginu var einmitt lagt upp með að hægt væri að endurspegla áherslur ríkisstjórnar á hverjum tíma með flutningi verkefna á milli ráðuneyta þannig að þessi flutningur endurspeglar ákveðna áherslu. Það eina sem hér hefur gerst er að þarna eru ákveðin verkefni flutt til forsætisráðuneytisins frá menntamálaráðuneytinu og endurspegla þar með ákveðna áherslu, sérstaklega á þá flokka sem þar eru taldir upp. Þegar spurt er: Hvað er átt nákvæmlega við með þjóðmenningu? gefur það auðvitað augaleið að ekki er til einhver ein skilgreining á henni. Ég held að hv. málshefjandi átti sig vel á því að ekki verður gefin einhver ein skýring á því hvað átt er við með þjóðmenningu.

Það sem liggur fyrir er listi yfir þau verkefni og þá málaflokka sem fluttir hafa verið milli ráðuneyta. Það er ekkert flóknara en það og það þarf ekkert að velta því fyrir sér frekar, það liggur fyrir í forsetaúrskurðinum hvað þarna er átt við.

Undirbúningur málsins fór fyrst og síðast fram í stjórnarmyndunarviðræðum þar sem rædd voru áhersluatriði ríkisstjórnarinnar, það sem ríkisstjórnin vill leggja áherslu á og þannig varð þetta til.

Auðvitað stendur núna yfir samráð á milli embættismanna í forsætisráðuneytinu annars vegar og í mennta- og menningarmálaráðuneytinu hins vegar um það hvernig að þessu verður staðið og skiptir miklu máli að vel takist til. Ég get alveg sagt það að ég er mjög ánægður með að staðið er svona að þessum málum hvað það varðar að þarna eru mikilvæg mál á ferðinni. Mér finnst það ekkert óviðeigandi eða ankannalegt með nokkrum hætti að forsætisráðuneytið og forsætisráðherra segi: Ég vil leggja alveg sérstaka áherslu á þessi mál og ég vil gjarnan fá þau yfir til mín, og þá flytjist þau. Ég geri ekki ráð fyrir að hér sé um varanlegan flutning að ræða en þannig verður þessum málum skipað á meðan þessi ríkisstjórn situr í það minnsta nema annað komi fram vegna þess að hæstv. forsætisráðherra vill leggja alveg sérstaka áherslu á þessi mál.

Ég held að það sé ekkert óeðlilegt við það. Þegar við samþykktum ný lög um Stjórnarráðið sem deilur voru um hér var lagt upp með að þetta væri hægt að gera. Það væri eðlilegt að framkvæmdarvaldið hefði svigrúm að færa verkefni á milli til þess að stjórnarstefnan og áhersluatriði í stjórnarstefnunni næðu fram að ganga. Ég ítreka að hér verður ekki gefin upp einhver einföld „formúlering“ af minni hálfu á því hvað nákvæmlega er átt við með hugtakinu þjóðmenning. Það er eðli málsins ekki hægt að gera það. Það er bara of flókið mál. Þess vegna ítreka ég að það er það sem liggur fyrir í forsetaúrskurðinum sem um er að ræða og gefur þá mynd af því hvaða áherslur það eru sem hæstv. forsætisráðherra lagði til grundvallar þegar hann væntanlega ásamt öðrum í stjórnarmyndunarviðræðunum gekk frá þessari niðurstöðu.