142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

staða þjóðmenningar og menningarmála almennt í stjórnskipuninni.

[13:43]
Horfa

Sigrún Magnúsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Í ríkisstjórn sem er mynduð til endurreisnar heimilunum og samfélaginu er rökrétt að menningararfinum sé komið stjórnsýslulega fyrir á vegum forsætisráðuneytisins. Fátt er mikilvægara en að standa vörð um þjóðmenningu og því er eðlilegt að málefni sem hana varða sérstaklega séu vistuð í forsætisráðuneytinu. Menntun og umhverfi eru mótandi þættir í uppeldi okkar og skapa okkur ef til vill mest sem Íslendinga ásamt málinu og bókmenntunum. Hið íslenska bókmenntafélag, sem stofnað var 1816 til þess að endurreisa íslenska menntun og menningu undir forustu Íslendinga sjálfra, hafði mikil áhrif, bæði í sjálfstæðisbaráttunni og við að kynna erlenda menningarstrauma fyrir þjóðinni.

Að vera framsækinn en forn í senn þýðir í mínum huga að hugsa um lausnir og sköpun tækifæra en hafa jafnframt í huga mótandi siði og verkmennt fyrri kynslóða. Við eigum dýrmætan menningararf í húsakynnum og þjóðháttum. Dæmi um hugvit og verkmenningu er til dæmis íslenski torfbærinn. Smám saman er að renna upp fyrir fólki sérstaða hans í heimsmenningunni. Hann er stórkostleg aðlögun húsakynna að umhverfi og veðráttu. Dæmi um sköpun og verkkunnáttu kvenna er flatt, þunnt brauð, þ.e. laufabrauð, pönnukökur og flatkökur. Að mínu viti mótaðist þessi kökugerð af skorti, skorti á mjöli og skorti á bakarofnum.

Við sækjum um þessar mundir mjög fram í fjölmenningu til dæmis í framandi matargerð en í leiðinni viljum við og eigum að halda í sérstöðu okkar og ekki láta hana ganga okkur úr greipum heldur varðveita þekkingu til komandi kynslóða. Verum framsækin, skapandi en berum umhyggju fyrir menningunni, einnig manngerðu og náttúrulegu umhverfi landsins. Þjóðmenning landsins á hvergi betur heima en á stjórnarheimili forsætisráðherra.