142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

staða þjóðmenningar og menningarmála almennt í stjórnskipuninni.

[13:50]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér stöðu þjóðmenningar í stjórnskipaninni. Mér fannst áhugaverðast það sem kom fram í umræðunni hjá hæstv. ráðherra, að þarna væri um að ræða í hans huga, og þá væntanlega huga ríkisstjórnarinnar allrar og hæstv. forsætisráðherra, tímabundið fóstur þjóðmenningarlegra þátta til að efla og styrkja þessa þætti menningarinnar. Ég skildi hæstv. ráðherra þannig að þessir þættir þyrftu sérstaka næringu, sérstaka hlýju, utanumhald og upplyftingu og að þess vegna væri þeim betur fyrir komið hjá forsætisráðherra.

Það er mjög kúnstug nálgun, verð ég að segja. Er það til styrkingar þjóðmenningu á Íslandi að rífa hana frá menningarmálaráðuneytinu þar sem sérfræðiþekking og uppbygging til margra ára og áratuga hefur átt sér stað hvað varðar málaflokkinn í heild? Svo er það nú eiginlega ögn vandræðalegra þegar hæstv. forsætisráðherra forðast að skilgreina hvað felst í hugtakinu. Skyldi það vera vegna þess að hæstv. ráðherra var ekki þeirrar gæfu aðnjótandi að hafa aðkomu að sumarbústaðarferðum í aðdraganda ríkisstjórnarmyndunar og þá ekki heldur að þeirri ákvörðun að þjóðmenningin var tekin frá menningarmálaráðherranum áður en hann settist sjálfur í ríkisstjórn? Gæti það verið ástæðan?

Virðulegur forseti. Það er að minnsta kosti torkennilegt þegar hér er talað um skynsemi og fagmennsku og vinnubrögð nútímans og framtíðarinnar (Forseti hringir.) að rökstuðningurinn skuli ekki vera mikilfenglegri en fram kemur í máli hæstv. ráðherra.