142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi.

9. mál
[14:55]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og gerist oft þegar hv. þm. Árni Páll Árnason fer yfir hlutina þá vinnst ekki tími til að leiðrétta allar rangfærslurnar sem fram koma í máli hv. þingmanns. Ég veit að virðulegur forseti sýnir þessu skilning. Ég mun reyna að bæta úr þessu hér í lokin þegar ég held aðra ræðu til að fara yfir ýmsar mistúlkanir sem þegar hafa komið í ljós.

Ræða hv. þingmanns virtist nánast eingöngu byggjast á því að reyna eftir fremsta megni að snúa út úr þeim liðum sem raktir eru í þingsályktunartillögunni lið fyrir lið. Mér þótti það skjóta nokkuð skökku við í ljósi þess að hv. þingmaður er nýbúinn að lýsa því yfir að hann ætlaði ekki að standa í vegi fyrir því að sú stefna sem framsóknarmenn boðuðu í kosningunum í skuldamálum heimilanna næði fram að ganga, að úrslit kosninganna hefðu sýnt að ríkisstjórnin ætti að fá tækifæri til að hrinda þeim í framkvæmd.

Ég geri hins vegar sérstaka athugasemd við það, og það er ástæðan fyrir því að ég bað um andsvar, að hv. þingmaður haldi áfram að skálda upp hvað núverandi hv. þingmenn Framsóknarflokksins hafi sagt í aðdraganda kosninga og jafnvel eftir kosningar. Það gengur ekki að hv. þm. Árni Páll Árnason haldi enn áfram, eftir að búið er að leiðrétta hann nokkrum sinnum, að fullyrða að framsóknarmenn hafi boðað að það yrðu sendar út einhverjar ávísanir eða fólk fengi peninga borgaða strax í sumar vegna skuldaleiðréttingaraðgerða.

Það hefur legið fyrir frá upphafi að þetta héldist í hendur við annað, tengdist öðrum málum og óhjákvæmilegt væri að vinna þetta samhliða þeim. Enda var það síðasta vígi hv. þingmanns í kosningabaráttunni, þegar var búið að fallast á forsendur framsóknarmanna að öðru leyti, að segja: Já, en gallinn er þó sá að þetta tekur of langan tíma.