142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi.

9. mál
[15:01]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það veldur mér vonbrigðum að hv. þm. Árni Páll Árnason skuli gera lítið úr stökkbreytingu húsnæðislána með því að kalla þau verðbólguskot. Það kann að vera að það sé þess vegna sem hann sagði eftir kosningar að hann og flokkur hans hefðu beðið afhroð vegna þess að þeir hefðu ekki skilið hvað brann á þjóðinni. Líklega er það þess vegna. Það er kannski líka þess vegna sem hann og hans ágæti flokkur hreyfðu hvorki legg né lið fyrir heimilin í landinu meðan tækifæri var til.

Mismunurinn er kannski sá (Gripið fram í.) að meðan hv. þingmaður hlustaði ekki á þjóðina gerðum við framsóknarmenn það. Og við hlustuðum ekki bara á þjóðina, við höfðum kjark til að koma fram með alvörutillögur að því hvernig hægt væri að leysa úr vanda þessara heimila. Við erum ekki eins og búskussinn, nágranni hv. þingmanns, við ætlum að nota sumarið til að heyja að okkur upplýsingum, við ætlum að nota sumarið til að gaumgæfa þær reglur sem farið verður eftir þegar til aðgerða kemur. Við ætlum að vanda okkur, við ætlum að gera þetta rétt. Við ætlum að láta þær aðgerðir sem við ætlum að fara út í standast og við ætlum að gera hlutina einu sinni vegna þess að við ætlum ekki að láta þennan fortíðarvanda heimilanna verða framtíðarvanda þeirra. Við ætlum að leysa þessi vandamál sem best við getum í eitt skipti fyrir öll.