142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi.

9. mál
[15:33]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er óneitanlega sérkennilegt að heyra stjórnarandstæðinga koma hér upp hvern á fætur öðrum til þess að lýsa því yfir að það sé algjört hneyksli að menn séu ekki búnir að framkvæma hlutina strax á fyrstu dögum í ríkisstjórn, hluti sem þeim entust ekki fjögur ár til að byrja á af nokkru viti.

Jæja, gott og vel, það er vísað í kosningabaráttuna og yfirlýsingar þar. Og hverjar voru þær yfirlýsingar? Það var beinlínis uppleggið í stefnu framsóknarmanna fyrir kosningar að leggja til ákveðna meginhugsun og halda því svo opnu að vinna úr henni með öðrum í framhaldinu, það var uppleggið. Við vorum gagnrýnd fyrir það í kosningabaráttunni.

Nú leyfa menn sér að koma hér og fullyrða að menn hafi sagt að það væri bara allt tilbúið, það ætti bara að hrinda öllu í framkvæmd strax á fyrstu dögum í sumar. Það var aldrei sagt. Þvert á móti, við vorum gagnrýnd fyrir að vilja vinna hlutina almennilega, vilja leita til sérfræðinga, vilja hafa samráð, vegna þess að við vorum brennd af reynslunni af því að hafa komið með útfærða tillögu, nákvæma tillögu um 20% leiðréttingu á sínum tíma, stóra tækifærið sem var til þess. Það varð til þess að þáverandi stjórnarflokkar létu umræðuna alla snúast um annars vegar smáatriðin í útfærslunni og hins vegar hvaðan útfærslan kæmi. Hún kom frá Framsóknarflokknum og þess vegna var ekki hægt að fallast á hana.

Þess vegna fórum við aðra leið núna. Við sögðum: Getum við ekki verið sammála um meginhugsunina, meginmarkmiðið og unnið svo saman að því? Þannig fórum við í síðustu kosningar. Það er það umboð sem stjórnarandstæðingar tala svo mikið um að ríkisstjórnin hafi núna, það umboð er byggt á einmitt því að við höfum lýst meginmarkmiðinu og ætlum svo að vinna það áfram með m.a. stjórnarandstöðunni, sem ég hélt reyndar að ætlaði að taka því fagnandi að fá tækifæri til að hleypa þessum málum hér áfram en virðist enn þá vera svo svekkt yfir niðurstöðum kosninganna (Forseti hringir.) að hún fær sig ekki til þess.