142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi.

9. mál
[15:36]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er aum pólitík að gera andstæðingunum eða fulltrúum annarra flokka stöðugt upp skoðanir og ráðast svo á hinar ímynduðu skoðanir andstæðingsins í stað þess að ræða hlutina bara eins og þeir eru. (Gripið fram í.) Það er því miður aðferð sem núverandi stjórnarandstöðuflokkar hafa beitt alllengi og virðast ætla að beita áfram þrátt fyrir allt talið um ný vinnubrögð í pólitík.

Í kosningabaráttunni hröktust andstæðingar framsóknarmanna úr einu víginu í annað. Fyrst var því haldið fram að framsóknarmenn hefðu ekki sýnt fram á hvernig hægt væri að fjármagna úrbætur í skuldamálum heimilanna. Á endanum urðu menn að viðurkenna að búið væri að sýna fram á að hægt væri að fjármagna þetta. Búið var að sýna fram á að hægt væri að gera þetta. En hvert var síðasta vígið, það vígi sem menn héldu sig í alveg fram á kjördag? Jú, það var að ekki væri hægt að gera þetta strax, það tæki tíma og að framsóknarmenn hefðu ekki útfært hlutina heldur bara lýst markmiðunum og ætluðu síðan með hjálp sérfræðinga að útfæra hlutina.

Svo koma menn nánast daginn eftir kosningar og eru þá algjörlega búnir að endurskilgreina það sem framsóknarmenn sögðu í kosningabaráttunni og snúa algjörlega við því sem þeir sögu sjálfir í kosningabaráttunni. Nú er þetta allt í einu á hvolfi. Nú er fullyrt að framsóknarmenn hafi boðað það í kosningabaráttunni að farið yrði í aðgerðir strax, þeir væru búnir að útfæra þetta allt saman, ætluðu ekki að hlusta á neina, þyrftu enga sérfræðinga, þyrftu ekki að hlusta á neina vegna þess að þeir væru með þetta allt á hreinu sjálfir.

Hvort á það að vera? Ætla menn að gagnrýna Framsóknarflokkinn fyrir að vera með tillögur sem þarfnast útfærslu eða ætla þeir að gagnrýna Framsóknarflokkinn fyrir að vinna hlutina nú almennilega og undirbúa lagasetningu þannig að hún standist? Það er nú reyndar eitt af því sem ég hefði haldið (Forseti hringir.) að núverandi stjórnarandstaða hefði lært af reynslu sinni í ríkisstjórn, að það er mikilvægt að vanda til lagasetningar.