142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi.

9. mál
[16:52]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Mig langar að byrja á því að ræða aðeins um það sem hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir sagði í pontu áðan þegar hún gerði því skóna að þingmenn stjórnarandstöðunnar væru hér meira og minna til að hlusta á sjálfa sig í pontu en ekki til að vinna fyrir þjóðina. Síðan talaði hún um að við skyldum vinna saman í sátt og vera góð hvert við annað. Mér fannst ekki sérlega vel að orði komist að halda því fram að ég sem stjórnarandstöðuþingkona í minni hluta, eins og ég get alveg fallist á að sé heppilegra komandi úr sveitarstjórn, sé hér til að hlusta sérstaklega á sjálfa mig tala en ekki til að vinna fyrir þjóð mína.

Ég er búin að vera, eins og aðrir, að lesa yfir þessa þingsályktunartillögu og kom aðeins inn á hana í ræðu í gær þar sem mér finnst hún heldur rýr og velti fyrir mér sem nefndarmaður í fjárlaganefnd að meiri hlutanum af því sem snýr að lækkun og leiðréttingu á skuldamálum heimilanna eigi ekki að skila fyrr en í nóvember. Þá verður fjárlagafrumvarpið væntanlega komið vel á veg og því er ekki óeðlilegt að við þingmenn stjórnarandstöðunnar spyrjum eðli málsins samkvæmt: Er gert ráð fyrir því í fjárlögum næsta árs samt sem áður að eitthvað af þessu komi til framkvæmda? Á það þá að koma í fjáraukalögum eða hvernig á að vinna þessa vinnu?

Hér eru jú, eins og hefur komið fram, starfshópar eða nefndir og í rauninni á ekkert að gerast á þessu sumarþingi eða á næstu vikum sem skiptir máli. Það að stjórnin fái tíma til að vinna vinnuna sína er ekki eitthvað sem ég er að tala fyrir að sé óeðlilegt, en eins og talað var í kosningabaráttunni þá er heldur ekki óeðlilegt að við krefjumst þess að fram komi einhverjar tillögur sem eru klárar. Það var talað þannig. Ég fór á fundi þar sem margítrekað var sagt að þetta væri ekkert mál og það væri hægt að leiðrétta og bjarga hlutunum tiltölulega fljótt.

Í athugasemdum við þingsályktunartillöguna kemur fram að nauðsynlegt sé að horfa til útfærslu og framkvæmdar tillagnanna um skuldaleiðréttingu, þar er m.a. talað um kostnað við aðkomu ríkissjóðs. Þetta hlýtur að lúta að starfi okkar í fjárlaganefnd. Í lið nr. 2 er talað um að gera úttekt á kostum og göllum og stofna leiðréttingarsjóð. Teymi fagaðila á að leggja fram tillögu um fjármögnun sjóðsins. Þarna er talað algerlega án þess að nokkuð búi að baki, þ.e. ekki virðast vera neinar hugmyndir um hvar þetta geti átt heima, hvar þessa peninga sé að finna. Á sama tíma koma forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar fram og tala um stóra gatið í ríkisfjármálunum og skera svo niður tekjurnar. Þá þykir manni þetta auðvitað svolítið sérstakt og því veltir maður því auðvitað fyrir sér. Allar þessar nefndir og á sama tíma er talað um að staðan sé miklu verri. Einhverjar hugmyndir hljóta bæði framsóknarmenn og sjálfstæðismenn að hafa haft í aðdraganda kosninga um það hvernig væri hægt að leysa þessi mál. Þetta eru góðra gjalda verðar hugmyndir, það er enginn að tala um annað.

Við gerð núgildandi fjárlaga, þ.e. fyrir árið 2013, var lagt upp með áherslur á bættan hag barna og fjölskyldna. Barnabætur voru stórhækkaðar og vaxta- og húsnæðisbætur. Við vinstri græn töluðum ævinlega um það í kosningabaráttunni áfram þyrfti að gæta aðhalds. Við lofuðum ekki stórkostlegri niðurfellingu á skuldum en við hlífðum velferðarþjónustunni á þessu ári og við töluðum um að ef það skapaðist borð fyrir báru mundum við svo sannarlega leggja fjármuni í innviði samfélagsins. Á meðan töluðu framsóknarmenn sérstaklega mikið um hrægammasjóði. Það virkaði á fólk eins og þar væri vont fólk sem hefði tekið af okkur Íslendingum fjármuni sem það ætti að skila til baka.

Varðandi fjármuni, verði þeir til einhvers staðar, hvort sem það er í vogunarsjóðum eða annars staðar, þá er vert að spyrja þessara spurninga fyrir komandi kynslóðir: Er þeim rétt varið eingöngu í skuldaniðurfellingu heimila eða á að greiða niður vexti ríkissjóðs? Við eigum að greiða marga milljarða í vexti á ári. Komandi kynslóðir græða á því að við greiðum niður skuldir ríkisins. Eigum við að taka sérstaklega þá sem tóku verðtryggð lán út fyrir sviga? Það deilir enginn um það að sannarlega eru einhverjir enn í vanda. Það er líka eitt af því sem hefur komið fram í umræðunni því að stjórnarandstaðan hefur verið gagnrýnd fyrir málflutning sinn eins og ekkert hafi verið gert á síðasta kjörtímabili fyrir þessar fjölskyldur, fyrir skuldsett heimili. Því get ég ekki verið sammála en hér hefur það ítrekað verið sagt að loksins séu einhverjir komnir til valda sem ætli að gera eitthvað fyrir fjölskyldurnar í landinu.

Mér finnst vert að skoða og spyrja spurninga. Talað hefur verið um að þrjár fjölskyldur á dag hafi misst húsnæði frá hruni, um það bil 5 þús. fjölskyldur. Ungur maður, Konráð Guðjónsson, sem er hagfræðingur í meistaranámi, hefur skrifað svolítið um skuldavanda heimilanna. Á vísir.is er, með leyfi forseta, grein eftir hann frá 12. júní þar sem hann vitnar í opinberar tölur og talar um að í „september 2008 voru 5.800 íbúðir, sem byrjað var á eða voru auðar, á höfuðborgarsvæðinu“ og hann spyr sig hversu margar þeirra hafi verið í eigu verktaka eða lögaðila og þannig komist í hendur fjármálastofnana. Hann segir að Íbúðalánasjóður hafi átt fyrir ári síðan 1.751 íbúð sem flestar urðu hans eign eftir hrun, 947 í eigu lögaðila og 804 í eigu einstaklinga. Af þeim eru nú 707 leigðar út. Þess vegna er ekki óeðlilegt að maður spyrji sig hversu margar fjölskyldur hafi í raun og veru misst heimili sitt. Það eru auðvitað gögn sem við þurfum að hafa í höndunum þegar við tökum ákvörðun um það hvernig og hverja þarf að aðstoða.

Þar sem forsendubresturinn hefur orðið meiri vegna verðlags og fasteignamarkaðurinn fer hækkandi má líka velta fyrir sér hvort það sé réttlátt að þeir sem fá hugsanlega niðurfellingu fái líka verðhækkun á húsnæði sínu af völdum þessa sama forsendubrests. Samkvæmt skýrslu Seðlabankans frá því 2012 um stöðu heimilanna eru 3/4 af þeim sem mundu fá 20% niðurfellingu ekki í vanda og 2/3 af þeim sem eru í vanda mundu áfram vera í vanda miðað við þá forsendu. Auðvitað kemur fram, eins og við í Vinstri grænum sögðum ítrekað í kosningabaráttunni svart á hvítu, að þeir efnuðustu mundu fá hæstu niðurfellinguna.

Ég held að fyrir komandi kynslóðir sé líka hægt að hugsa til þess að þetta sé ekki endilega eina lausnin. Það er alveg verðugt verkefni og ég held að allir hafi talað að einhverju leyti fyrir því að breyta kerfinu, þ.e. lánakerfinu, verðtryggingunni. Einhverjir hafa talað um að afnema verðtrygginguna, aðrir hafa talað um að það sé kostur að hafa bæði verðtryggð og óverðtryggð lán. Það er að mínu skapi alla vega, ég mundi vilja geta valið. Hins vegar höfum við rætt um að setja þak á verðtrygginguna, vextina, í því sambandi.

Það er að mörgu að hyggja þegar þessi mál eru rædd. Ég hélt satt að segja að Framsóknarflokkurinn sem talaði svona drýgindalega í kosningabaráttunni hefði virkilega verið kominn með einhverjar útfærðar hugmyndir. Ég veit um fólk sem trúði því líka, ég segi ekki daginn eftir kosningar en það átti sannarlega von á því á að það fengi að heyra af því á þessu sumarþingi að til stæði að leggja til sýnilegar framkvæmdir en ekki eitthvað sem enginn hefði í hendi.