142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi.

9. mál
[17:27]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hafði ætlað mér síðar í ræðu minni að koma með eina fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra en hann er ekki í salnum þannig að ég óska alla vega eftir því að henni verði komið til hans svo að hann geti svarað henni í lokaræðu sinni um þetta mál. Ég ætlast ekki til að sérstaklega verði á hann kallað, en að félagar hans sem sitja í salnum komi spurningunni áleiðis þannig að hann geti svarað henni í samantektarræðu sinni hér í lokin.

Virðulegi forseti. Það mál sem við ræðum hér, þ.e. skuldamál heimilanna, er eitt af því stærsta og erfiðasta sem ríkisstjórnin á fráfarandi kjörtímabili fékkst við. Nánast samhliða því að forða landinu frá þjóðargjaldþroti horfðum við upp á sívaxandi vanda heimilanna í landinu. Það var ekki bara skellurinn sem kom á heimilin sem voru með gengistryggð lán heldur hinar hratt vaxandi skuldir þeirra sem voru með verðtryggð lán.

Það var þröngt í búi og þess vegna var það sem þó var gert fyrir heimilin í landinu gert af miklum vanefnum. Það er ekki hægt af hv. þingmönnum sem hingað koma upp að heimta að allir séu málefnalegir í þessari umræðu en segja svo í næsta orði að fráfarandi ríkisstjórn hafi ekkert gert fyrir heimilin nema það sem dómstólar hafi skipað henni. Það er nefnilega alrangt, virðulegi forseti. Sú ríkisstjórn gerði gríðarlega margt fyrir heimilin en þó alls ekki nóg, ég er alveg sammála því. Við hefðum viljað gera miklu, miklu meira ef fjármunir hefðu verið til reiðu, ef við hefðum ekki líka verið í þeirri stöðu að koma okkur úr 18,6% verðbólgu, 18% stýrivöxtum, 1.500 punkta skuldatryggingarálagi, mínus á ríkiskassanum upp á 216 milljarða. Þannig var staðan hreinlega í upphafi síðasta kjörtímabils. Við það vorum við að fást og samhliða því að gera allt sem við gátum til að mæta skuldugum heimilum. Þess vegna fóru um 300 milljarðar til heimilanna á síðasta kjörtímabili, 200 milljarðar í gegnum fjármálastofnanir og 100 milljarðar beint úr ríkissjóði í gegnum vaxtabætur og barnabætur. Við vitum og ég hef sagt það áður að það var ekki nóg. Við vitum líka að hópar voru eftir sem þurfti að horfa sérstaklega til.

Í mjög góðri skýrslu frá nefnd undir forustu þáverandi hæstv. velferðarráðherra, Guðbjarts Hannessonar, um skuldamálin kom skýrt fram að það væru ákveðnir hópar sem þyrfti sérstaklega að huga að. Það var hópurinn sem keypti á versta tíma fyrir hrun, það var hópur sem var með lánsveð og líka þeir sem höfðu tekið lán hjá Íbúðalánasjóði sem ekki hafði haft burði til þess að ganga jafn langt og aðrar fjármálastofnanir til að mæta lántakendum sínum.

Virðulegi forseti. Í þessari stöðu má segja að þáverandi stjórnarandstaða sem nú er að miklu leyti komin í ríkisstjórn, eða a.m.k. tveir stærstu flokkarnir, hafi ekki gert okkur þessi mál auðveld vegna þess að hún horfðist aldrei í augu við þá stöðu sem ríkissjóður og þjóðarbúið var raunverulega í og efnahagslífið, heldur talaði hér og gerði kröfur og ýtti undir væntingar fólks eins og enginn væri morgundagurinn og allir væru fjármunirnir í ríkiskassanum. Stuðningurinn kom svo sannarlega ekki þaðan við þær erfiðu aðgerðir sem fráfarandi ríkisstjórn stóð í. Þess vegna er ekkert skrýtið að menn hefðu gríðarlegar væntingar til þeirra flokka sem gengu þannig fram, ekki bara í kosningabaráttunni heldur allt kjörtímabilið, eins og hér væru til reiðu fjármunir til að gera miklu, miklu meira fyrir heimilin í landinu en gert var. Þess vegna er eðlilegt að það séu væntingar og eðlilegt að gerð sé krafa um að menn komi tilbúnir til leiks á sumarþing þegar þeir hafa haft fjögur ár til að smíða þær tillögur eins og aðrir höfðu — fjögur ár.

Virðulegi forseti. Það var líka talað með þeim hætti í kosningabaráttunni og aðdraganda hennar eins og menn væru með þetta allt á hreinu. Peningarnir voru þarna til reiðu hjá hrægömmunum. Það átti að vera hægt að semja við bankana um að byrja að greiða þetta og lækka höfuðstólana strax í sumar. Svona töluðu menn. Það er því ekkert óeðlilegt þó að væntingarnar hafi verið miklar. Það er því ekkert óeðlilegt að það sem kemur fram í þessari tillögu sé gagnrýnt, að af tíu liðum séu fimm nefndir eða úttektir, helmingurinn. Tvívegis byrjar setning á „Kannað verði …“, þ.e. sjö atriði eru ýmist úttekt, nefnd eða eitthvað sem á að kanna. Þrjú atriði tryggja ágætlega að menn ætli að vinda sér í þau og eitt þeirra liggur hér fyrir frá innanríkisráðherra. Það er vel eins og ég hef áður sagt.

Virðulegi forseti. Hér á sem sagt að setja þetta stóra mál í enn eina nefndina. Mig langar líka að nefna dæmi um það hversu gleiðir menn voru og brattir í yfirlýsingum sínum í aðdraganda kosninga í þessum þingsal. Í 6. lið í þessari tillögu til þingsályktunar stendur að settur verði á fót sérfræðingahópur um afnám verðtryggingar af neytendalánum. Tillögur þessa hóps og tímasett áætlun á að liggja fyrir í lok árs 2013.

Hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir og Eygló Harðardóttir, þáverandi þingmaður og núverandi hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra, áttu í orðaskiptum hér í þinginu þann 15. mars síðastliðinn. Hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir gagnrýndi þáverandi hv. þm. Eygló Harðardóttur fyrir það að Framsóknarflokkurinn væri enn einu sinni að boða að setja verðtryggingarmálin í nefnd. Þá sagði, með leyfi forseta, núverandi hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra Eygló Harðardóttir:

„Í svari mínu við hv. þingmann nefndi ég ekki að skipa ætti einhverja nefnd. Ég talaði um nefndir sem skipaðar hafa verið og hafa skilað af sér tillögum, þær hafa lagt fram áætlun um að gera það. Tillögur okkar varðandi afnám verðtryggingarinnar ganga út á það að framkvæma það.“

Svo mörg voru þau orð, virðulegi forseti. Svona töluðu menn og þá er eðlilegt að væntingarnar séu miklar. Ef menn geta komið fram með jafn flókin og viðamikil mál og breytingar og lækkun á veiðigjaldi, eins og verið er að dreifa í þinginu, en geta ekki komið með mál hingað inn sem tengjast skuldavanda heimilanna þá hljóta menn að spyrja um forgangsröðun. Það er ekkert einfalt mál að gera breytingar á veiðigjaldinu þannig að það lækki tekjur ríkissjóðs á þessu ári um 3,2 milljarða. Það getur ekki verið mjög einfalt mál, menn hljóta að hafa hugsað það. Þá hljóta menn líka að hafa eytt í það tíma sem þeir hefðu getað eytt í að koma með tillögur um skuldavanda heimilanna.

Virðulegi forseti. Spurning mín til hæstv. forsætisráðherra snýr að því að einn hópur þurfi sérstakrar úrlausnar við, svokallaður lánsveðshópur. Framsóknarflokkurinn sat hjá þegar við afgreiddum mál á síðasta þingi um það að þessi hópur fengi sérstakar viðbótarvaxtabætur á þeirri forsendu að ekki væri nægjanlega langt gengið. Allt í lagi, það er afstaða út af fyrir sig. Hins vegar náðum við þó fyrir kosningar að klára langþráð samkomulag við lífeyrissjóðina um lánsveðin til að þessi hópur gæti fengið sambærilegar niðurfærslur og aðrir hópar í samfélaginu hafa fengið svo að hann sæti ekki lengur eftir. Þetta samkomulag náðist. Núna eru stjórnir lífeyrissjóðanna að samþykkja þetta að því er ég best veit hver á fætur annarri.

Því spyr ég: Þegar rætt var í gær af hálfu forustumanna þessarar ríkisstjórnar um að það þyrfti að endurskoða nýjar ákvarðanir sem fyrri ríkisstjórn hafði gert, átti það við um lánsveðin? Þau eru ekki í þessum aðgerðalista. Er það yfirsjón að lánsveðshópurinn sé ekki á listanum og efndir gagnvart honum eða er ekki ætlunin að gera neitt fyrir þann hóp?

Ég tel mjög mikilvægt að hæstv. forsætisráðherra svari þessari spurningu hér þannig að þessi hópur verði ekki áfram í óvissu.