142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[18:15]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég segi er þetta sjónarmið og ég heyri hvað hæstv. ráðherra er að segja og hvernig hann rökstyður viðhorf sín í þessu efni. Ég er ekki fullkomlega sammála honum hvað þetta snertir og tel að það fyrirkomulag sé heppilegra sem valið var á þinginu í vor þar sem reynt er að ná utan um hvort tveggja. Það sjónarmið sem hæstv. ráðherra hefur hér uppi um að það sé eðlilegra að þingið kjósi þessa stjórn að öllu leyti og að þingið geti að sjálfsögðu leitað eftir fagfólki, ef svo má að orði komast eða fólki með sérstaka þekkingu á ákveðnum málefnum — auðvitað getur þingið gert það, við gerum það iðulega. Við erum að kjósa hér — að vísu er ekkert mjög mikið orðið um að kosið sé í stjórnir eða annað slíkt í þinginu, en einhverjar leifar eru eftir af því. Það var miklu meira um það áður. Hér var kosið í stjórnir fyrirtækja ríkisins, í bankaráð o.s.frv. og það var lagt af.

Þess vegna velti ég því upp í umræðunni í dag og ég fór í andsvar við hæstv. ráðherra um hvort þetta boðaði þá tíma að ríkisstjórnin mundi í vaxandi mæli koma með frumvörp á öðrum sviðum þar sem gert væri ráð fyrir því að Alþingi kysi stjórnir eða ráð eða nefndir til þess að fara með málefni einstakra stofnana eða fyrirtækja. Ráðherrann svaraði því reyndar í dag. Ég veit að hann hefur ekki tækifæri til að koma hér aftur þar sem andsvörum er lokið. Það verður fróðlegt að sjá hvernig það þróast og hver framtíðin verður í því efni.

Eins og ég segi munum við að sjálfsögðu taka þetta mál til gaumgæfilegrar skoðunar í hv. allsherjar- og menntamálanefnd og kalla eftir umsögnum og fá gesti til þess að ræða málið við og taka síðan frekari umræðu um málið við 2. umr.