142. löggjafarþing — 6. fundur,  14. júní 2013.

launakjör kandídata á Landspítalanum.

[10:50]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina um þetta brýna og mikla mál sem hún gerir að umtalsefni og er staða mála á Landspítalanum. Það er full ástæða til að draga það út til annarra þátta íslenskrar heilbrigðisþjónustu sem býr við þá stöðu í dag að henni hafa verið naumt skammtaðir fjármunir sem og margri annarri starfsemi hjá ríkinu. Það ágæta starfsfólk sem við höfum við vinnu undir þessum þjónustuþætti ríkisins vinnur undir gríðarlega miklu álagi og alls staðar eru uppi launakröfur, eðlilega, til að mæta vaxandi þunga við að framfleyta heimili.

Það eitt get ég sagt á þessari stundu að við munum gera allt til þess, beita öllum meðulum og öllum ráðum til að halda í þá mestu auðlind og þau verðmæti sem íslensk þjóð hefur fjárfest í á löngum tíma í grundvallarstoðkerfi íslensks þjóðfélags sem er heilbrigðiskerfið.

Ég hef ekki á reiðum höndum upplýsingar eða svör við þeim spurningum sem hv. þingmaður beindi til mín. Ég kann ekki greininguna á þessu eftir starfsstéttum og öðru því um líku. En það er alveg ljóst að átök hafa orðið átök milli forstjóra spítalans og fulltrúa kandídata í læknanámi. Ég treysti því að það ágæta fólk allt saman sem kemur að því máli leysi þann ágreining. Það þjónar hvorki hagsmunum einstakra hópa né okkar sem viljum þjóðfélaginu vel að vera í stöðugum ágreiningi um mál sem þessi inni á Landspítala – háskólasjúkrahúsi. Vilji okkar stendur til að bæta úr. Við erum að reyna að leggja okkur fram um það. Við gerum ráð fyrir því að við fjárlagagerð fyrir árið 2014 getum við gripið til ráðstafana (Forseti hringir.) varðandi heilbrigðisþjónustuna og vænti þess að það gangi eftir með skynsamlegum hætti.