142. löggjafarþing — 6. fundur,  14. júní 2013.

gjaldfrjálsar tannlækningar.

[10:56]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Guðbjarti Hannessyni fyrir fyrirspurnina og þakka honum við þetta tækifæri sömuleiðis góð störf í þeim málaflokki sem hann spyr hér út í. Hv. þingmaður nefnir að ný ríkisstjórn og ríkisstjórnarflokkar bregðist ekki við með þeirri bjartsýni og trú á getu sína til góðra verka sem vænst hafi verið og sakar okkur um kjarkleysi.

Ég vil af því tilefni leyfa mér að fullyrða að það er fullur kjarkur og full bjartsýni í núverandi ríkisstjórnarflokkum á að þær tillögur og þær hugmyndir sem við leggjum fram og berjumst fyrir muni skila okkur árangri. Og af því að hv. þingmaður nefnir að áætlanir hafi ekki gengið eftir og ræðir um framúrkeyrslu og annað því um líkt vil ég segja: Á síðustu þremur fjárlagaárum virti stjórnarmeirihlutinn fjárlögin sem Alþingi setti að vettugi þannig að uppsöfnuð framúrkeyrsla á fjárlögum þriggja síðustu ára var 160 milljarðar umfram heimildir.

Vandinn við barnatannlækningarnar er sá að fjármögnun vantar fyrir það góða verk. Ég nefni sem dæmi að hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra ritaði ekki undir samkomulagið fyrr en 13. apríl, tíu, fimmtán dögum fyrir kosningar og það var allt að fara í steik hjá þeim sem áttu að undirbúa málið.

En það er fullur vilji og hefur aldrei verið gefið neitt annað til kynna en að staðið verði við þá samninga sem þar voru gerðir. Vandinn við þetta mál sem búið er að blása upp stafar af því að ekki er búið að finna fjármögnun fyrir dæmið. Það verður gert.