142. löggjafarþing — 6. fundur,  14. júní 2013.

gjaldfrjálsar tannlækningar.

[10:58]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil fagna svari hæstv. heilbrigðisráðherra sem ég ætla að óska velfarnaðar og óska til hamingju með starfið, sem ég hef auðvitað gegnt persónulega, það er erfitt starf fram undan. Ég treysti á að hann standi við það að efla okkur bjartsýni, kjark og þor, ekki veitir af.

Það er rétt að hann er í erfiðum málaflokki og til margra hluta að líta, en þegar verið er að krefja okkur um að bæta við þá stendur í fjárlögum varðandi tannlækningarnar að settar eru í þann lið 150 millj. kr., það muni síðan verða bætt við í fjáraukalögum, það stendur í fjárlögum fyrir árið í ár. Við skulum ekki tala um það eins og það séu einhver óvænt útgjöld. Þetta eru 20 ára vandamál sem búið er að glíma við, menn hafa verið samningslausir og við höfum verið okkur til skammar í sambandi við þennan þátt heilbrigðisþjónustunnar. Þess vegna var þetta gríðarlega mikilvægt skref sem tannlæknar stigu, ekkert síður en stjórnvöld, til að ná samningum og um tilhögun mála til frambúðar.

Það eru fleiri mál sem við lögðum áherslu á eins og fæðingarorlofið, barnabæturnar og jafnlaunaátakið (Forseti hringir.) sem er líka mikilvægt til að bæta kjör heilbrigðisstéttanna sem sitja gjarnan eftir í samanburði við viðskiptalífið. Ég treysti á að þau fyrirheit gangi öll eftir. (Forseti hringir.) Við skulum hjálpast að til að finna fjármagn fyrir þau.