142. löggjafarþing — 6. fundur,  14. júní 2013.

hvalaskoðun.

[11:01]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég óskaði eftir að eiga orðastað við ráðherra iðnaðar og viðskipta vegna þess að sá ráðherra, sem ég óska velfarnaðar í starfi, er jafnframt ráðherra ferðamála.

Nú er komin upp sú staða að nýr sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur sagst vera að endurskoða ákvörðun fyrri ráðherra um stækkun hvalaskoðunarsvæða. Hér er um að ræða í raun og veru vinsælustu afþreyingargrein ferðaþjónustunnar og verulega vaxandi atvinnugrein. Það sem mig langar til að velta upp er hvernig ferðamálaráðherra sér fyrir sér að geta stutt við þessa stórvaxandi atvinnugrein með ráðum og dáð þegar um er að ræða þennan núning sem ítrekað hefur komið fram. Raunar er það svo að helsti talsmaður hvalveiða á Íslandi er í þingflokki Sjálfstæðisflokksins.

Mér telst til að 15–16 fyrirtæki muni bjóða upp á hvalaskoðunarferðir í sumar, þrjú á Húsavík, þrjú í Eyjafirði, tvö á Vestfjörðum, eitt á Snæfellsnesi, eitt í Vestmannaeyjum og tvö á Reykjanesi og líklega þrjú til fjögur í Reykjavík Það má reikna með að allt í allt séu 300 manns starfandi beint og óbeint við hvalaskoðun auk hundruð annarra starfsmanna veitingastaða, rútufyrirtækja o.s.frv.

Ég vænti þess að hæstv. ráðherra líti svo á að það sé hennar verkefni að standa með þessari mikilvægu grein ferðaþjónustunnar, þ.e. hvalaskoðuninni, og í ljósi þess að öflug griðasvæði eru starfsumhverfi þessarar þjónustu muni hún standa vörð um þau.