142. löggjafarþing — 6. fundur,  14. júní 2013.

atvinnu- og orkustefna ríkisstjórnarinnar.

[11:08]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér atvinnustefnu nýrrar ríkisstjórnar sem er kannski eitt af því almikilvægasta sem er undir í framtíðarsýn hverrar ríkisstjórnar þegar hún sest að borðum vegna þess hversu ríkan þátt atvinnulífið skipar í efnahagslífi, uppbyggingu og samsetningu samfélags.

Í aðdraganda kosninga var það almennt rætt að svo virtist sem hefðbundin gamaldags átök um áferð atvinnulífsins væru að baki og margir vildu jafnvel segja að tími stjóriðjustefnunnar væri liðinn, að menn væru komnir á þá skoðun að skynsamlegra væri að geyma eggin í fleiri en einni körfu, að það væri skynsamlegt að tryggja hámarksarðsemi orkufyrirtækjanna og selja orkuna á því verði sem skilaði sem mestu til almennings og að við værum að hverfa frá afsláttarstefnu í þeim málum.

Í aðdraganda kosninga ræddi til að mynda Sjálfstæðisflokkurinn ekki sérstaklega um stóriðju, ekki í kosningastefnuskrá sinni, og raunar er áhugavert að í kaflanum um atvinnulíf í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar komi orðið iðnaður ekki fyrir. Það er einfaldlega ekki nefnt þannig að þær áherslur sem eru síðan að koma í ljós eftir að ríkisstjórnin tók við, sem eru að sumu leyti áherslur gamals tíma og vísa ég þá til orða hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra, vekja mann til umhugsunar um það hvort þessi breyting á áferð stefnunnar hafi kannski ekki náð lengra en svo að í raun og veru hafi gamla stóriðjustefnan lúrt undir allan tímann.

Ég spyr því hæstv. ráðherra í þessari umræðu um það hvernig hún sjái samspil orkustefnunnar því að við eigum jú drög að nýrri orkustefnu sem er unnin í gríðarlega breiðri samvinnu. Ætlar ríkisstjórnin að nýta sér hana? Hvernig sér ríkisstjórnin fyrir sér þátt skapandi greina og nýsköpunar í fjölbreyttu atvinnulífi til framtíðar? Hvernig sér ný ríkisstjórn fyrir sér stöðu ferðaþjónustunnar, mikilvægi þess að verja náttúruna og fjármagna þá varðstöðu? Hvert er virði íslenskra víðerna í samspilinu við uppbyggingu ferðaþjónustunnar? Er eðlilegt að stjórnvöld leggi stórfyrirtækjum lið með beinum hætti eins og hæstv. ráðherra hefur lagt til? Hver er staða kröfunnar um sjálfbærni og sjálfbæra þróun í framtíðarsýn hæstv. ráðherra?

Svo vil ég taka það fram í þessari umræðu að atvinnulíf er líka opinber starfsemi. Atvinnulíf er líka starfsemi velferðar-, heilbrigðis- og menntastofnana og vísa ég þá til orða hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra í fyrirspurnatímanum hér rétt áðan þar sem hann benti beinlínis á að að hans mati hefði rekstri hins opinbera verið hlíft á undanförnum fjórum árum. Þá vil ég bara spyrja hæstv. ráðherra um sýn hennar á stöðu hins opinbera í atvinnulífinu.

Hver er hlutur stóriðjustefnunnar í framtíðarsýn ráðherrans í atvinnumálum? Hvernig spilar sú staðreynd svo saman við að jarðhitinn er í vanda? Það blasir við. Gríðarstór hluti vatnsafls hefur þegar verið virkjaður á Íslandi. Hvað með lítil og meðalstór fyrirtæki og þá staðreynd að áliðnaðurinn er líka í vanda og áhöld eru um fjármögnun slíkra verkefna?

Virðulegur forseti. Spurningar eru ærnar en ráðherrann hefur stóran málaflokk með höndum og ég vænti þess að hún gefi hér skýr svör og greinargott yfirlit yfir atvinnustefnu nýrrar ríkisstjórnar.