142. löggjafarþing — 6. fundur,  14. júní 2013.

atvinnu- og orkustefna ríkisstjórnarinnar.

[11:13]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa umræðu og fyrir að vekja athygli á þeim mikilvægu málaflokkum sem atvinnu- og orkumál eru. Spurningarnar voru fjölmargar, það er rétt hjá hv. þingmanni, og ég mun leitast við að svara þeim á þessum stutta tíma en við tökum þá bara umræðu síðar ef þessi verður ekki tæmandi.

Atvinnuuppbygging er eitt af forgangsverkefnum og aðalmálum þessarar ríkisstjórnar. Að tryggja að hér á landi verði þau tækifæri sem eru alls staðar til atvinnusköpunar nýtt á næstu árum. Ég mótmæli þeirri fullyrðingu hv. þingmanns að hér eigi bara að vera einhver ein atvinnugrein. Eins og fram kom í orðaskiptum okkar áðan þá er það ekki þannig heldur þvert á móti. Núverandi ríkisstjórn ætlar ekki að etja fyrirtækjum og atvinnugreinum saman heldur er það mín skoðun og stefna ríkisstjórnarinnar að atvinnulífið eigi að vera sem fjölbreyttast og að við getum og eigum að efla atvinnulífið allt og styðja við bakið á öllum þeim fjölbreyttu atvinnutækifærum sem hér eru fyrir hendi.

Í mínum huga má meitla verkefni í atvinnumálum í eina setningu: Við viljum laga það sem er bilað og við viljum efla það sem er í lagi. Þetta nær utan um hugsunina sem ég ætla að vinna eftir og leggja mig alla fram um að koma í verk á þessu kjörtímabili. Stöðugt og fyrirsjáanlegt rekstrarumhverfi atvinnureksturs, hvaða nafni sem hann kann að nefnast, er forsenda þess að hægt verði að byggja hér upp á ný og sækja fram á öllum sviðum atvinnulífsins. Ég ítreka þetta: Á öllum sviðum atvinnulífsins.

Fjölbreytt og arðbært atvinnulíf. Ég er sammála hv. þingmanni, það er undirstaða þess að hægt sé að tryggja hérna velferð og fjármagna þá opinberu þjónustu sem við erum öll að kalla eftir og gerum kröfu til, að ekki sé minnst á þann ávinning og þann sparnað sem felst í því að útrýma atvinnuleysi og breyta bótum í laun, koma hér á arðbærum störfum. Verkefnið er því að auka verðmætasköpun. Stærsta viðfangsefnið er að auka gjaldeyristekjur þjóðarinnar og því verður áherslan að sjálfsögðu lögð á þrjár meginstoðir gjaldeyrisskapandi greina, ferðaþjónustuna, iðnaðartengdan útflutning — en auk hefðbundinna afurða má nefna að þar koma meðal annars skapandi greinar sífellt sterkari inn — og svo auðvitað sjávarútveginn. Þarna liggja sóknarfærin og við þurfum að byggja þarna upp.

Spurt var um ferðaþjónustuna. Þar eru ómæld tækifæri með gríðarlegri fjölgun erlendra ferðamanna en við verðum, eins og málshefjandi bendir réttilega á, að tryggja og huga að innviðunum og að sú vara sem við erum að bjóða upp á, sem er íslensk náttúra, sé í stakk búin til að taka við þeim fjölda ferðamanna sem hingað sækir. Innan ráðuneytisins er þegar komin í gang skoðun á grundvelli þess að setja á laggirnar gjaldtöku til að standa undir uppbyggingu og varðveislu ferðamannastaða. Sú vinna verður unnin í góðu samstarfi við greinina og aðra þá sem eiga hlut að máli, m.a. þá sem bera hag umhverfisins mest fyrir brjósti og þá sem fara með skattlagningarvaldið hér í landi o.s.frv. Þetta er brýnt verkefni og ég legg áherslu á að vandað verði til verka en það þarf líka að vinna það hratt og vel.

Nýsköpun. Þar er margt að gerast. Þar er gróska af öllu tagi og mikill sóknarhugur nýrra sem reyndari fyrirtækja í ýmsum greinum. Hugverkaiðnaður, leikjaiðnaður, hönnun, allt vekur þetta athygli á Íslandi og styður hvert við annað. Tónlistariðnaðurinn vekur athygli á Íslandi og dregur hingað ferðamenn sem svo aftur ýta undir verslun og þjónustu og þannig er þetta allt saman ein virðiskeðja.

Orkunýtingin. Spurt var um hana. Hún er að sjálfsögðu ein af stoðum atvinnuuppbyggingar hér. Ég verð að segja að það kemur mér á óvart ef hv. þingmaður telur að ég hafi ekki talað um stóriðju fyrir kosningar sem hluta atvinnuuppbyggingar vegna þess að ég veit og hef rifjað það upp síðustu daga, eftir að þessi umræða hófst, að við fjölmörg tilefni og tækifæri í þessum sal höfum ég og þáverandi hæstv. umhverfisráðherra einmitt átt orðaskipti um stóriðju. Það þarf því ekki að koma hv. þingmanni á óvart að ég skuli líta til orkunýtingar sem einnar af stoðum atvinnulífsins.

Varðandi orkunýtingu vil ég líka nefna að ég tel að sú stefna sem þáverandi hæstv. umhverfisráðherra ber ekki síst ábyrgð á, að færa úr nýtingarflokki allar helstu vatnsaflsvirkjanirnar sem mögulegar eru og reiða sig á jarðvarmann til framtíðarnýtingar í orkugeiranum, hafi verið kolröng vegna þess að við sjáum á nýlegum fréttum af Hellisheiðinni að jarðvarminn þarf meiri tíma. Þess vegna tel ég að í orkunýtingu til framtíðar (Forseti hringir.) þurfum við að horfa bæði til vatnsafls og jarðvarma. Allt gerum við þetta að sjálfsögðu með sjálfbærni í huga (Forseti hringir.) og í góðri sátt við (Forseti hringir.) náttúruna vegna þess að það er það sem við lifum á.