142. löggjafarþing — 6. fundur,  14. júní 2013.

atvinnu- og orkustefna ríkisstjórnarinnar.

[11:38]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir afar góða umræðu. Ég vil þó segja, vegna þess sem fram kemur í máli bæði hæstv. ráðherra og hv. þm. Unnar Brár Konráðsdóttur um rammaáætlun og það hefur raunar komið fram líka í máli hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, að það er mikilvægt að ríkisstjórnarflokkarnir ræði sig aðeins saman um þau mál vegna þess að hæstv. ráðherra hefur umhverfismál á sínu borði í hjáverkum. Hæstv. ráðherra leggur áherslu á það í fréttatilkynningu frá umhverfisráðuneytinu að fagleg vinna verkefnisstjórnar haldi áfram eins og lagt hafi verið upp með, svo og þeirra faghópa sem hún skipar, m.a. að vinna við rannsóknir á greiningu á þeim virkjunarkostum sem nú eru í biðflokki.

Með leyfi forseta:

„Lagði ráðherra til að við sína forgangsröðun tæki verkefnisstjórn til skoðunar þá orkukosti, sem fjallað er um í 12. kafla álits meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis frá því í vetur. Eru þessar áherslur í samræmi við lög um rammaáætlun og áherslur í fyrirliggjandi þingsályktunartillögu.“

Þau áform sem verið er að boða ítrekað af ákveðnu ábyrgðarleysi í þingræðum hæstvirtra ráðherra og hv. þingmanna, sérstaklega Sjálfstæðisflokksins, um að til standi að taka upp rammaáætlun, eins og það sé eitthvað sem maður gerir bara sisvona, hafa verið leiðrétt af hæstv. ráðherra þeim sem með umhverfismál fer. Ég vænti þess að þeir þingmenn, sem hér fara hástemmdum orðum um að fara beri faglega að þessu öllu saman og gæta að ferlinu, þyki vænt um að ný verkefnisstjórn sé að störfum. Þeir ætla þá væntanlega ekki að kippa því úr faglegu samhengi með sínum pólitísku fingrum.

Síðan vil ég spyrja, vegna þess að hæstv. ráðherra hefur sagt að henni finnist að vatnsaflið eigi að fara úr biðflokki í nýtingarflokk: Telur (Forseti hringir.) hún þá í sömu andrá að það beri að skoða jarðvarmavirkjanir, í ljósi nýjustu frétta, sem eru í nýtingarflokki og færa í biðflokk?