142. löggjafarþing — 6. fundur,  14. júní 2013.

atvinnu- og orkustefna ríkisstjórnarinnar.

[11:41]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessa umræðu sem hefur verið góð og málefnaleg. Af mörgu er að taka og ég kemst að sjálfsögðu ekki yfir að svara öllum þeim spurningum sem til mín var beint en ég vænti þess að við eigum hér frekari orðaskipti fljótlega um þessi mál.

Ég vil taka undir ummæli hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur um hugtakið „ráðuneyti tækifæranna“. Það er augljóst þegar maður sest í þennan stól að þarna er urmull tækifæra og fólk sem bíður alls staðar, bæði innan ráðuneytis og utan og í atvinnulífinu sjálfu, eftir því að nýta þau tækifæri. Og já, ég skal fullvissa hv. þingmann um að sú góða vinna — og ég get hrósað hv. þingmanni fyrir það starf sem hún innti af hendi í ráðuneytinu, þær úttektir sem hún nefndi verða að sjálfsögðu nýttar og byggt á þeim upplýsingum sem þar liggja því að þar hefur verið unnið gott starf.

Varðandi endurgreiðslurnar vegna þróunarkostnaðar, Tækniþróunarsjóð og Inspired by Iceland þá eru þetta að sjálfsögðu atriði sem við erum að fara í gegnum í tengslum við fjárlagagerðina en ég get fullvissað hv. þingmann um að ég mun gæta hagsmuna þessarar atvinnugreinar og þeirra verkefna sem þarna um ræðir.

Aðeins varðandi rammaáætlun og spurningar hv. þingmanns, málshefjanda, þá hef ég margoft sagt, og við sjálfstæðismenn, í umræðunni um rammaáætlun á sínum tíma, að þessi ríkisstjórn hyggst vinna að endurskoðun hennar. Við gagnrýndum rammaáætlun og þau inngrip sem þáverandi ríkisstjórn greip til. Að sjálfsögðu munum við endurskoða það með það fyrir augum að upphafleg markmið vinnunnar við rammaáætlun náist. Og hvað var það? Jú, að ná sátt um nýtingu og verndun. Þetta var ekki verndaráætlun heldur verndar- og nýtingaráætlun. Ég er sannfærð um að ef okkur lánast að setjast niður í friði og spekt og fara yfir þessi mál (Forseti hringir.) þá náum við lendingu sem við getum öll, hvaða skoðanir sem við höfum á þessu, sætt okkur við.