142. löggjafarþing — 6. fundur,  14. júní 2013.

veiðigjald.

15. mál
[12:01]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Hún er fyllilega eðlileg.

Það er fyrst að segja að þorskígildisútreikningarnir liggja auðvitað ekki fyrir fyrr en í júlí. Varðandi áhyggjur hv. þingmanns af því, eðlilega, er um að ræða áætlun í bæði loðnu og makríl, þar er ákveðið magn og ekki er búið að úthluta því. Þess vegna kemur það ekki til greiðslu fyrr en því verður úthlutað. Reynist það verða meira eða minna magn tekur álagningin auðvitað tillit til þess. Ef það fer til að mynda svo illa að loðnustofninn standi ekki eins vel og við vildum, sem lítur út fyrir að einhverju leyti, og að minna magni verði úthlutað verður álagningin þar náttúrlega mun lægri.

Varðandi þau gögn og útreikninga sem hv. þingmaður vísaði til er að sumu leyti erfitt að bera saman tölur yfirstandandi árs í krónutölu og þá krónutölu sem hér birtist. Hér er ráðuneytið búið að reikna út til þess að vera með jafna álagningu á þessa tvo útgerðarflokka, þ.e. annars vegar á bolfiski og hins vegar á uppsjávarfiski. Hvernig hinar tölurnar voru fundnar sem eru notaðar á yfirstandandi fiskveiðiári er ekki gott að átta sig á, en þær hefðu átt að vera verulega öðruvísi, sérstaklega er varðar uppsjávarfiskinn, og þá mun hærri. Í raun fer það lækkandi miðað við sams konar útreikninga.

Öll þau gögn sem hv. þingmaður vísaði til verða kynnt í hv. atvinnuveganefnd og farið verður mjög vel í gegnum það þannig að atvinnuveganefnd sé fullkomlega upplýst um hvernig þær tölur eru fengnar og um forsendur þeirra og þær áætlanir sem menn reikna með í álagningu sérstaks veiðigjalds til þessa eina árs sem um er að ræða.