142. löggjafarþing — 6. fundur,  14. júní 2013.

veiðigjald.

15. mál
[12:13]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það var sérkennilegt að tarna. Hér er látið eins og allt sé á hausnum í útgerðinni á Íslandi og menn barma sér yfir því að rekstrarskilyrðin séu ómöguleg.

Virðulegi forseti. Síðustu fjögur ár hefur verið meiri hagnaður í útgerð á Íslandi en í áratugi áður. Tugmilljarðahagnaður, hátt í 100 þúsund millj. kr. framlegð. — Og þetta er forgangur ríkisstjórnarinnar.

Hæstv. ráðherra svaraði því ekki af hverju ríkisstjórnin er ekki búin að afgreiða málefni aldraðra og öryrkja, leiðréttingar til þeirra, þegar hún getur tekið þetta mál, með 10 milljarða tekjutapi, svona hratt í gegn.

Ég ítreka þá spurningu: Voru málefni aldraðra og öryrkja afgreidd í ríkisstjórn í morgun þannig að þau komist til umræðu í næstu viku eða á það að sitja á hakanum? Eru deilur um það í ríkisstjórn?