142. löggjafarþing — 6. fundur,  14. júní 2013.

veiðigjald.

15. mál
[12:26]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Varðandi það sem kom fram í ræðu hæstv. ráðherra um gildandi lög er vissulega rétt að þau eru eins og öll önnur mannanna verk ekki án ágalla. Það var iðulega rætt í umræðum um það frumvarp og lagasetninguna að þessa aðferðafræði þyrfti að þróa, gagnagrunninn þyrfti að styrkja. Framtíðarmarkmiðin væru að geta aðgreint betur afkomu innan einstakra greina og fært upplýsingarnar sem næst okkur í samtíma sem væru andlag gjaldtökunnar. Að því leyti get ég að sjálfsögðu tekið undir að það þarf að leggja vinnu í að þróa betur aðferðafræðina. Það hefur verið hafin vinna að því leyti og það er m.a. hlutverk veiðigjaldsnefndar samkvæmt lögunum að koma með ábendingar um það sem betur megi fara í þeim efnum.

Að hinu leytinu er ég mjög ósammála mörgu af því sem hæstv. ráðherra þuldi hér upp í langri ræðu um alla mögulega ágalla á þessari aðferðafræði. Mér fannst það ekki sérstaklega málefnalegt heldur hefði ég viljað heyra hæstv. ráðherra fara skilmerkilega yfir ágallana en líka viðurkenna að hér er stuðst við viðurkennda aðferðafræði sem er orðin þróuð í réttinum um auðlindarentunálgun þegar kemur að endurgjaldi fyrir nýtingu verðmætrar afmarkaðrar auðlindar. Það fannst mér hæstv. ráðherra alveg missa út úr sínu máli. Við getum vísað þar til margra fræðirita, skýrslna og greina frá OECD, frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og víðar að þar sem þessi aðferðafræði er orðin mjög vel viðurkennd. Við þurfum ekki annað en yfir til Noregs til að finna alveg þrælmótaða aðferðafræði um það hvernig norska ríkið, norska þjóðin, tekur til sín stærstan hlutann af auðlindarentunni sem sprettur af nýtingu olíu- og gaslindanna þar.

Þessi langa vandræðaupptalning í ræðu hæstv. ráðherra fannst mér ekki góð. Satt best að segja leyfi ég mér að segja, þó að það sé kannski strákslegt, að allstóran hluta af ræðu hæstv. ráðherra, harmagrátinn um það hvað þetta væri allt saman erfitt, hefði LÍÚ verið fullsæmt af. Þetta er kveinið sem við heyrum úr þeim, og við skulum ekki missa það út úr umræðunni að það er verið að takast á um mikla hagsmuni. En reynum að halda okkur niðri á jörðinni og ræða kost og löst hlutanna.

Það er í fyrsta lagi rétt að þorskígildisstuðlarnir eru ekki gallalaus viðmiðun í þessum efnum, það er vel viðurkennt. Í öðru lagi væri æskilegt að geta brotið greinarnar betur niður, t.d. innan bolfisksútgerðarinnar og horfa þá betur til þess hver er sóknarkostnaður, hver er endanleg framlegð út úr rekstri við að sækja einstakar tegundir, því að þar duga ekki bara endanleg afurðaverð eins og kunnugt er.

Á hinn bóginn bið ég menn að staldra við áður en þeir gefa sér, eins og svífur yfir vötnum og mér heyrist að hæstv. ríkisstjórn sé að tala í áttina að í vatnsyfirlýsingu sinni, hvort það var Apavatn eða Laugarvatn eða hvar þetta var nú samið, að það eigi að reyna að leggja þetta á hvert einstakt fyrirtæki. Það er ekki ný hugmynd undir sólinni eða hvað? Auðvitað er búið að þrælskoða hvernig það kemur út. Það hefur auðvitað LÍÚ viljað gera, færa þetta bara inn í eins konar skattalegt uppgjör á grundvelli bókhalds fyrirtækjanna.

Þá gerist tvennt. Annars vegar kemur til sögunnar hættan á því að menn fari að gullhúða hjá sér handriðin, þ.e. að menn færa alls konar kostnað á reksturinn til að sýna sem minnsta framlegð. Þetta er vel þekkt í fræðunum, þetta er ekki einhver uppfinning vondra manna, að sá ágalli er alltaf á því ef menn ætla að ná út sérstakri auðlindarentu við þessar aðstæður með því að leyfa fyrirtækjunum að nota allar mögulegar leiðir til að bókfæra hjá sér sem minnstan hagnað eða minnsta framlegð að endingu.

Hitt kemur líka til sögunnar, sem ætti nú ekki að þurfa vinstri manninn til að benda sumum hér í þingsal á, samkeppnissinnuðum þingmönnum, að þá færa menn þunga greiðslnanna á best reknu fyrirtækin og hlífa lakast rekna hlutanum ef þeir láta afkomu hvers og eins fyrirtækis vera andlagið að fullu og öllu leyti. Þá bera best reknu fyrirtækin með mestu framlegðina, mesta hagnaðinn, þungann af gjöldunum og hinum er hlíft. Og hvaða áhrif hefur það til lengdar á atvinnugrein af þessu tagi, er það það sem við viljum?

Kosturinn við að nálgast þetta út frá einhvers konar meðaltalsframlegð, meðaltalsafkomu er að þá hafa menn að einhverju að keppa og betur reknu fyrirtækin koma að breyttu breytanda betur út. Þau eiga þann kost að reyna að standa svo vel að sínum rekstri að afkoman sé a.m.k. í meðaltalinu eða yfir því og þá léttist greiðslan hlutfallslega hjá þeim með það. Ég hélt að það væru einhverjir enn þá í þessum sal sem hefðu kannski tilhneigingu til að nálgast hlutina að einhverju leyti út frá þessu.

Svo má auðvitað líka velta fyrir sér að einhverju leyti að blanda þessum tveimur leiðum saman, því að hvorug er gallalaus, það er rétt. Það má segja að það sé gert að hluta til með því að skipta veiðigjöldunum í tvennt, annars vegar almennt gjald, sem er það hóflegt að allir eiga að geta ráðið við það í öllu venjulegu árferði, og hins vegar sértækara gjald sem tekur sérstakt mið af afkomunni. Það kæmi vissulega til greina, ég viðurkenni það, að þá væri horft að einhverjum hluta til til eiginlegrar afkomu hvers og eins fyrirtækis.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um það hvernig staðið var að undirbúningi þessa frumvarps og hvernig samskipti ráðuneytisins voru á þeim dögum frá því að ónefndur maður hvarf þaðan og þangað til frumvarpið var lagt fram við veiðigjaldsnefnd. Það hafði verið unnið þannig að þessu og undirbúið meðan ég kom við sögu að það væri hlutverk veiðigjaldsnefndar að reyna að koma tillögum til ráðuneytisins um það sem betur mætti fara um álagningu veiðigjalda, eftir atvikum hugmyndum um að breyta þyrfti lögum fyrir álagninguna á næsta fiskveiðiári.

Er efnisinntak frumvarpsins að einhverju leyti byggt á tillögum frá veiðigjaldsnefnd? Stendur veiðigjaldsnefnd að baki þeirri útfærslu hér að lækka svona mikið sérstaka veiðigjaldið á bolfiskinn en hækka það á uppsjávarveiðarnar? Er það byggt á einhverjum gögnum frá veiðigjaldsnefnd eða settu menn puttann upp í loftið inni í ráðuneytinu, í Brú eða einhvers staðar annars staðar og fundu bara út úr þessu?

Ég segi svipað og síðasti ræðumaður, ég var mjög undrandi þegar ég sá þetta frumvarp. Ekki það að ég þekkti ekki málflutning stjórnarflokkanna en ég átti ekki von á því að útfærslan, ef menn hneigðust að því að leggja aftur veiðigjaldið á með krónutölu á þorskígildi á grundvelli bráðabirgðaákvæða, mundi sýna svona gríðarlegan mun í álagningunni á bolfiskinn og á uppsjávarveiðarnar, því að það munar um minna en þarna er lagt til.

Stjórnarflokkarnir hafa sagt að þeir hafi áhyggjur af afkomu lítilla og meðalstórra fyrirtækja í bolfisksveiðunum. Ég deili þeim áhyggjum að hluta til. Ég hef sagt það opinberlega og sagði meðan ég var ráðherra að það er að sýna sig að þetta er hvað þyngst og erfiðast fyrir lítil og kannski meðalstór bolfisksveiðifyrirtæki, sérstaklega þau sem eru eingöngu í veiðum og njóta ekki framlegðar af vinnslu í sínum rekstri. Það held ég að sé ljóst. Ég er sammála því mati að það er sá hluti útgerðarinnar í dag sem á hvað erfiðast með þetta.

Á móti kemur að vísu að sá hluti útgerðarinnar hefur notið sérstaklega aukins þorskkvóta núna ár eftir ár og á svipað í vændum á næsta fiskveiðiári. Það hlýtur að sjálfsögðu að koma til móts að einhverju leyti við það að afkoman þarna hefur þyngst. Það er líka ljóst að þróun verðvísitölu sjávarútvegsins hefði sjálfkrafa leitt til nokkurrar lækkunar á sérstöku veiðigjaldi á botnfiski á grundvelli gildandi laga. Þannig virkar það. Verðvísitalan er tekin eins seint og hægt er áður en tillögur um veiðigjöld eru lögð á samkvæmt lögunum í lok apríl, ef ég man rétt, og hún hefur þegar lækkað þó nokkuð. Það hefði sjálfkrafa leitt til þess að þetta hefði orðið eitthvað léttar á bolfisksveiðunum.

Er þetta þá aðferðin til að koma sérstaklega til móts við lítil og meðalstór fyrirtæki í anda stjórnarflokkanna? Þetta er dálítil fjallabaksleið í þeim efnum því hverjir munu fá langmest út úr þessari miklu lækkun, næstum helmingslækkun á sérstaka veiðigjaldinu á bolfisk? Það eru auðvitað stóru bolfisksfyrirtækin, að sjálfsögðu. Það eru þau sem fá þarna gríðarlega lækkun veiðigjalda. Þau eru ekkert öll lítil og ekkert öll í vandræðum og þau eru ekkert öll meðalstór. Það er alveg ljóst að fyrirtæki eins og Fiskiðjan á Sauðárkróki, Brim, Stálskip, Þorbjörn, Ögurvík, Gullberg, Rammi, Vísir í Grindavík, eru heldur betur að fá glaðning. Þetta eru kannski einu aðilarnir sem fá ávísunina frægu sem þjóðin hélt að hún fengi núna í sumar. (Gripið fram í: Feita tékka.) Þarna eru feitir tékkar á ferð.

Ef menn voru sérstaklega að hugsa um lítil og meðalstór fyrirtæki voru aðrar aðferðir nærtækari í lögunum, færa upp mörkin á einingaafslættinum, láta hann elta aðeins lengra upp í tonnum í þorskígildum, í staðinn fyrir 35/100, að fara þá í 50/250, eitthvað slíkt. Það hníga mörg rök til þess að þannig mætti kannski nálgast þetta og það hefði verið sanngjarnt.

Ég spyr líka um það hvernig menn hafa brotið niður fyrir sér líklega og raunverulega álagningu gjaldsins nettó á næsta ári. Hversu mikið mun botnfisksútgerðin borga í sérstakt veiðigjald þegar upp verður staðið, að teknu tilliti til afsláttanna? Það verður ekki mikið. Brúttóálagningin á samkvæmt þessu, 7,38 kr. á kílóið, að skila tæpum 3 milljörðum. En ef við skoðum það að langstærstur hluti skuldaleiðréttingarinnar lendir á þennan hluta útgerðarinnar, segjum 1.500, 1.550 milljónir af þessum áætluðu 1.800, og segjum að 340–350 milljónir af einingaafslættinum lendi sömuleiðis hjá þessum hluta útgerðarinnar, af 438, hvað stendur þá eftir í sérstakt veiðigjald á bolfiskinn nettó? Sennilega innan við milljarður kr., eins og hv. þm. Kristján L. Möller kom að. Hann var aðeins grófari í útreikningum en ég, talaði um 700 milljónir, ég mundi segja u.þ.b. milljarð, 2,70 kr. á kíló, eitthvað svoleiðis. Það verður þá allt og sumt sem bolfisksútgerðin á Íslandi borgar nettó í sérstakt veiðigjald á næsta ári. Afkoma hennar er ekki svo léleg, það er óravegur frá því.

Með því að viðhalda skuldaafslættinum og færa kannski upp einingaafsláttinn þannig að hann hefði vigtað dálítið upp í meðalstóru fyrirtækin, hefði það kostað nokkra milljarða en það væri miklu skilvirkari aðferð ef menn vildu ná fram markmiðunum sem ríkisstjórnin sjálf er að tala um. En aðferðin hér þýðir fyrst og fremst gríðarlega lækkun á mörg mjög öflug, stöndug og stór bolfisksfyrirtæki sem ráða vel við sitt veiðigjald. Það er bara þannig.

Ég er auðvitað dálítið nærri sjálfum mér í því að ég horfi á þetta líka út frá hagsmunum ríkissjóðs. Ég er satt best að segja gáttaður á því að eitt af fyrstu frumvörpum ríkisstjórnarinnar sé um 10 milljarða tekjutap fyrir ríkið á einu og hálfu ári eða einu ári og fjórum mánuðum. Ja, menn eru ekki í vandræðum, segi ég bara, ef þeir þurfa ekki að hugsa sig betur um en þetta áður en þeir létta svona gríðarlega gjöldum af stórum, ríkum sjávarútvegsfyrirtækjum sem geta vel borgað meira í veiðigjald í en þetta. Það er algerlega á hreinu. 3,2 milljarðar á þessu ári og 6,4 á næsta ári í tekjutap miðað við forsendur ríkisfjármálaáætlunarinnar sem mér sýnist að fjármálaráðuneytið leggi til grundvallar í kostnaðarmati sínu. Ekki endilega útreikninga á gildandi lögum eins og þau hefðu gefið af sér, sennilega um 17 milljarða í heildartekjur af veiðigjöldum á næsta fiskveiðiári og þá er afslátturinn enn meiri. Ég segi aftur: Menn eru ekki í vandræðum, það er alveg á hreinu, ef samúð manna liggur mest þarna.

Koma menn alveg hreint til dyranna þegar þeir færa málið í þann búning að þetta sé sérstaklega gert vegna þess að þeir hafi áhyggjur af litlu og meðalstóru fyrirtækjunum? Ég efast um að svo sé. Ég spyr mig líka að því hversu gríðarlegur munurinn er þarna orðinn á sérstöku veiðigjöldunum annars vegar á bolfiskinn og hins vegar á uppsjávarfiskinn. Við erum að tala um að veiðigjaldið á bolfiskinn lækkar brúttó um 15,82 kr. en brúttó hækkar það um 10,75 kr. á uppsjávarveiðarnar. Ég er sammála því að afkoman þar er afbragðsgóð en þetta tekur væntanlega talsvert í. Fyrirtæki sem eru eingöngu með aflareynslu eða veiðiheimildir í uppsjávarveiðum eru sennilega ekki mjög kát þessa dagana. Ætli þeim finnist sanngjarnt gefið? Eskja, sem er nánast alfarið með sínar veiðiheimildir í uppsjávartegundum — þetta er nú þó nokkuð sem lendir á henni. Ég ætla ekki að segja að það sé svo komið að þeir fari að sakna fyrri ríkisstjórnar en þeir eru örugglega ekkert sérstaklega kátir með sína menn núna, sumir íhaldsmennirnir þar á bænum til dæmis. Nefna mætti fleiri fyrirtæki.

Menn verða að hafa þetta í huga. Þetta jafnast meira út hjá stóru blönduðu fyrirtækjunum (Forseti hringir.) ef þau eru með veiðiheimildir bæði í uppsjávarveiðum og bolfiski.

Ég vil að lokum, herra forseti, leggja til að málinu verði vísað til (Forseti hringir.) fjárlaganefndar vegna áhrifa þess á ríkisfjármálin, þ.e. til viðbótar atvinnuveganefnd.