142. löggjafarþing — 6. fundur,  14. júní 2013.

veiðigjald.

15. mál
[12:42]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni lengi vel málefnalega ræðu og mjög áhugaverðar pælingar um hvernig framhaldið getur verið. Það er rétt að vinnan er hafin, eins og kom fram í máli mínu. Þessi aðgerð nú er til bráðabirgða, til eins árs, vegna þess að lögin sem ellegar hefðu tekið gildi 1. september eru óframkvæmanleg.

Ég vil nota tækifærið og spyrja hv. þingmann hvort hann geti ekki staðfest það sem fyrrverandi ráðherra að hann hafi haft upplýsingar um það frá veiðigjaldsnefnd, eins og kom fram í máli mínu, fyrst í desember og síðar í bréfi í lok mars, að þetta hafi ekki verið hægt. Af hverju var þá ekki verið brugðist við af hálfu fyrrverandi ríkisstjórnar á yfirstandandi vorþingi?

Varðandi aðkomu veiðigjaldsnefndar var hún kölluð fyrst til verks, það var mitt fyrsta verk. Hún hefur verið með í ráðum allan tímann og formaður veiðigjaldsnefndar mun koma á fund atvinnuveganefndar og fara yfir málið. Þetta mál hefur því verið unnið vel og vandað til verka eins og hægt er, (Forseti hringir.) á þeim stutta tíma sem gefist hefur til sumarþings, til þess að bregðast við því að lögin gátu ekki tekið gildi 1. september.