142. löggjafarþing — 6. fundur,  14. júní 2013.

veiðigjald.

15. mál
[12:43]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt að það voru vankantar á eða vandræði í framkvæmd gildandi laga, það kom fram. Ekki að lögin í sjálfu sér sem slík séu ekki alveg fullnægjandi grunnur heldur aðallega það að erfiðleikar voru við að ná fram samstarfi þeirra aðila sem verða að leggja í púkk til þess að allar upplýsingar liggi fyrir. Þá erfiðleika var mér fullkunnugt um og það var unnið hörðum höndum að lausn á því af ráðuneytinu. Ráðuneytisstjóri var meðal annars sérstaklega með það mál á sinni könnu að reyna að funda með ríkisskattstjóra, Hagstofu, Fiskistofu og veiðigjaldanefnd og öllum viðkomandi aðilum til þess að reyna að ná samningum um að hægt væri að draga þær upplýsingar út úr þessum embættum sem þyrfti til að hafa traustan grunn undir álagningu veiðigjaldsins. Það er rétt, þarna voru vandkvæði. Það er ekki í sjálfu sér vegna þess að lögin séu gölluð sem slík eða að umgjörðin sé ekki fullnægjandi heldur hefði kannski þurft að hafa skýrari lögheimildir til þess að skylda viðkomandi aðila til að leggja upplýsingarnar fram.