142. löggjafarþing — 6. fundur,  14. júní 2013.

veiðigjald.

15. mál
[12:47]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég kem hér upp til þess að spyrja hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra örlítið út í þetta frumvarp, eða í tilefni af ræðu hans, af því að ég er hér með frétt sem birtist í dag á visir.is þar sem talað er um bindandi samning um Norðfjarðargöng. Ég gleðst mjög yfir því að farið verði í gerð Norðfjarðarganga þó að það séu áform þessarar ríkisstjórnar að hætta við veiðigjaldið, sem ég tel algjörlega ófært nema farið verði mjög gaumgæfilega yfir lækkunina á því. Ætlunin var að veiðigjaldið yrði einmitt notað til þess að fjármagna Norðfjarðargöng og er mikið kvartað yfir því hér að staðan á ríkissjóði sé slæm.

Um leið og það er ánægjulegt að fara eigi í Norðfjarðargöng er fjármögnunin farin. Hvaða skilning hefur hv. þingmaður á því?