142. löggjafarþing — 6. fundur,  14. júní 2013.

veiðigjald.

15. mál
[12:55]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get fullvissað hv. þingmann um að það er enginn sjálfsbirgingsháttur í störfum núverandi ríkisstjórnar eða þeirra þingmanna sem skipa ríkisstjórnarmeirihluta hér á þingi. Við nálgumst þessi mál af auðmýkt og af raunsæi á sama grunni og við höfum gagnrýnt síðustu ríkisstjórn á síðasta kjörtímabili. Við trúum því að til séu aðrar leiðir sem muni skapa meiri arðsemi, skapa meiri atvinnu og betri afkomu almennt í samfélaginu en þær leiðir sem síðasta ríkisstjórn valdi að fara í gegnum skattlagningu.

Það er kannski einmitt mergurinn málsins í þeirri auðlindarentu sem við erum að tala um, hvernig á að nálgast þennan útreikning. Hvernig ætlum við að finna þann grunn sem þetta á að byggja á? Það krefst auðvitað vinnu vegna þess að ljóst er að sú vegferð sem farið var í á síðasta kjörtímabili gengur ekki upp, það kom fram í máli hv. formanns atvinnuveganefndar hérna síðast.

Ef við förum þá leið sem fyrrverandi hæstv. ráðherra boðaði hér, að við ættum að fara með afsláttarþrep upp (Forseti hringir.) fyrir lítil fyrirtæki, auka afsláttarþrepin í þessu, er þá ekki hætta á því að við komum í veg fyrir eðlilega þróun og hagkvæmni í greininni þar sem verið er að refsa fyrirtækjum fyrir að þróa, (Forseti hringir.) stækka og skapa meiri arðsemi fyrir þjóðarbúið?