142. löggjafarþing — 6. fundur,  14. júní 2013.

veiðigjald.

15. mál
[14:00]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hvet til þess að hv. atvinnuveganefnd fari vel yfir þessi mál, en mér finnst líka mikilvægt og ég nota það tækifæri sem ég fæ hér til að ítreka þá beiðni mína að frumvarpið verði einnig til umfjöllunar í fjárlaganefnd. Það skiptir mjög miklu máli, þarna eru tengsl á milli, þarna er um stóran tekjustofn að ræða sem ætti náttúrlega að renna beint í ríkissjóð.

Búið er að gera ráð fyrir því að hluti gjaldsins verði notaður í samgönguverkefni, til þess að styrkja landshlutasamtökin og til þess að styrkja Tæknisjóð og Rannsóknasjóð og að hluti hans fari beint í velferðarþjónustuna. Það skiptir allt máli og tengist saman. Það er afar mikilvægt að það sé ekki bara atvinnuveganefnd sem fjallar um frumvarpið heldur einnig fjárlaganefnd og jafnvel efnahags- og viðskiptanefnd ef út í það er farið.