142. löggjafarþing — 6. fundur,  14. júní 2013.

veiðigjald.

15. mál
[15:09]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Gunnarssyni fyrir ræðu hans. Ég veit að hann þekkir gjörla til þess sem hér er til umfjöllunar og hann mun gegna mikilvægu hlutverki í að fara yfir málið á vettvangi atvinnuveganefndar á milli umræðna. Ég treysti því að nefndin muni fara í málefnalega og vandaða umfjöllun og taka í það þann tíma sem hv. þingmaður kallaði eftir að væri gert á liðnu kjörtímabili þegar þessi mál voru þar til umfjöllunar.

Ég vil í þessu fyrra andsvari inna hv. þingmann einkum eftir tvennu. Annars vegar hvaða umboð nefndin hefur til breytinga á málinu á milli umræðna, þ.e. breytinga á fjárhæð veiðigjaldsins. Hefur nefndin svigrúm til að hækka það eða lækka eftir atvikum eða gera innbyrðis breytingar á því milli uppsjávarfisksins og botnfisksins hins vegar?

Þá hefur hv. þingmaður verið eindreginn talsmaður þess að lækka gjaldið á botnfiskinn og væntanlega að eðlilegra væri að uppsjávargreinarnar bæru meira en þær gerðu í upphaflegri skiptingu. Ég vil inna hv. þingmann eftir því: Hversu margar krónur er almenna veiðigjaldið eftir þessa breytingu, ef hún nær fram að ganga, og sérstaka veiðigjaldið samanlagt á hvert þorskkíló? Er það rétt hjá mér að þetta séu 17 kr. sem menn væru að greiða fyrir hvert kíló af veiddum þorski?