142. löggjafarþing — 6. fundur,  14. júní 2013.

veiðigjald.

15. mál
[15:13]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég fagna yfirlýsingu hv. formanns atvinnuveganefndar um að gefinn verði góður tími í þessa vinnu og fengnir að henni sérfræðingar enda minnir mig, þó að ég ætli nú ekki að sverja fyrir það án þess að fletta því upp, að hv. þingmaður hafi einmitt kallað eftir því að sérfræðingar yrðu fengnir til að gera úttekt á áhrifum breytinga á veiðigjöldum á greinina. Ég held að eðlilegt sé að gera það áður en lög eru sett þar um á Alþingi og eðlilegt að hv. þingmaður fylgi þeim orðum sínum frá fyrra kjörtímabili eftir í framkvæmdinni núna þegar hann er kominn hinum megin við borðið.

Það sem ég átti við þegar ég spurði um umboð nefndarinnar var að umboð manna takmarkast auðvitað að einhverju leyti af gildandi lögum. Gildandi fjárlög gera ráð fyrir ákveðnum tekjum sem ríkisstjórnin hefur í krafti stjórnarmeirihluta ákveðið að víkja frá og minnka tekjurnar frá því sem hefur verið ákveðið í fjárlögum. Ég skildi hv. þingmann þannig að hann telji koma til greina að ganga enn lengra í þessu efni og lækka gjaldið enn frekar, lækka það á uppsjávarhlutanum, þannig að eftirgjöfin gagnvart útgerðarmönnum og ávinningur þeirra verði enn meiri en hér er og gatið á fjárlögunum þeim mun stærra. Ég bið hann um að staðfesta það ef svo er.

Ég fékk ekki svar við þeirri spurningu sem mig fýsti kannski mest að vita um. Er það ekki rétt munað hjá mér að með þessum lækkunum sé gjaldið fyrir kíló af þorski komið niður í 17 kr.? Er það nú ekki býsna lítil greiðsla til almennings sem á auðlindina, 17 kr. á hvert kíló þorsks? Þurfa menn nú nokkuð að taka upp vasaklúta til að barma sér yfir stöðu greinarinnar ef gjaldið á ekki að vera hærra en þetta?