142. löggjafarþing — 6. fundur,  14. júní 2013.

veiðigjald.

15. mál
[15:22]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ekkert er óeðlilegt við það þó að fólk sé hugmyndafræðilega ósammála um hvaða leiðir sé rétt að fara. Við erum hér kjörnir fulltrúar kjósenda þar sem fólk hefur valið okkur eftir þeirri sýn sem flokkar okkar hafa á samfélagið.

Það er samt svolítið óþægilegt, sérstaklega í ljósi sögu ríkisstjórnarsamstarfs Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks að hér tvo daga í röð — fyrri daginn segir hæstv. forsætisráðherra að hann sé ósammála Seðlabankanum um að hætt sé við að flöt niðurfærsla skulda gagnist aðallega þeim auðugustu með hæstu tekjurnar. Hér er hv. þingmaður ósammála Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og virtum fræðimanni við háskóla, Jóni Steinssyni. Jón Steinsson segir einmitt í því viðtali sem Ríkisútvarpið tekur við hann að ef verið er að tala um verðmætasköpun, þ.e. hagvöxt í landinu, væri eðlilegra að hækka veiðigjaldið til að geta þá lækkað skatta sem í raun og veru væri hagvaxtarhvetjandi að gera.

Nú ætla ég ekki að fullyrða að hv. þingmaður kunni ekki að hafa rétt fyrir sér og þetta sé bara rangt hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Jóni Steinssyni. En telur þingmaðurinn og formaður nefndarinnar ekki rétt að fræðimaður á borð við Jón Steinsson, sem hefur þessi orð uppi við Ríkisútvarpið, fái tækifæri til að tjá sig fyrir nefndinni? Það væri hægt með fjarfundabúnaði að hafa samband, það eru til fínar slíkar græjur hér í þinginu.