142. löggjafarþing — 6. fundur,  14. júní 2013.

veiðigjald.

15. mál
[15:50]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Í fyrsta lagi varðandi meðferð atvinnuveganefndar á málinu tel ég það vera þess eðlis að fara þurfi vel ofan í saumana á því og að kalla verði til fjölda gesta og fá álit sérfræðinga, eins og menn töluðu mjög mikið um á sínum tíma og var gert. Ég held að það þurfi að gera það í þessu máli, ekki síst þar sem það getur skipt sköpum fyrir fjárlög ríkisins og það sem bundið er þar inni varðandi þessar tekjur ef hugsað er um framkvæmdahliðina.

Ég mun fylgja því eftir í hv. atvinnuveganefnd og styð það heils hugar að málið fari til umsagnar í fjárlaganefnd. Mér þykir líka eðlilegt að málið fari til umsagnar bæði í velferðarnefnd og efnahags- og viðskiptanefnd, af því að það hefur áhrif á alla þessa pósta með einum eða öðrum hætti.

Ég hef miklar áhyggjur af öllu því sem er í uppnámi vegna þess að það er ekki bara verið að lækka veiðigjöldin þetta mikið, hv. þingmaður nefndi að það gæti numið 8 milljörðum, heldur er líka verið að tala um að lækka virðisaukaskatt sem verður 6 milljarðar á næsta kjörtímabili, miðað við 1,5 milljarða á ári. Verið er að grafa undan framkvæmdagetu ríkisins á næstu árum í velferðarmálum, heilbrigðismálum, menntamálum og uppbyggingu samfélagsins þannig að það er grafalvarlegur hlutur sem ég tel að hæstv. ráðherra, sjávarútvegs-, landbúnaðar- og umhverfisráðherra, eigi að taka alvarlega. Ég veit að hæstv. ráðherra vill ekki vera sá sem ber ábyrgð á því að (Forseti hringir.) stoðir ríkissjóðs og ríkissjóður fari aftur á hliðina.