142. löggjafarþing — 6. fundur,  14. júní 2013.

veiðigjald.

15. mál
[15:56]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla nú ekki að fara í það hlutverk að vera með útskýringar á orðunum umframhagnaður og hagnaður. Allir þeir sem fylgjast með fréttum og lesið hafa fréttir og fylgjast með því bæði hjá Hagstofunni og Vísbendingu og öðrum sem fjalla um hagnað í greininni vita ósköp vel að hagnaður í sjávarútvegi hefur aldrei verið meiri. Þeir 80 milljarðar sem ég nefndi áðan eru ekki gripnir upp af götunni og þeir eru ekki persónulegir útreikningar mínir, heldur fékk ég þessar upplýsingar úr fjölmiðlum. Fleiri hafa nefnt þessa tölu í ræðu í dag. Ég er ekki eini þingmaðurinn sem nefnt hefur þessa tölu.

Ég ætla bara rétt að vona að það geri ekki útslagið hvort hægt verði að leggja veiðigjöld á greinina eða ekki hvort ég hef rétt fyrir mér eða ekki að hagnaður í greininni sé um 80 milljarðar. Ég vona að það verði ekki til þess að rugga bátnum, en ég tel að greinin geti vel borið það veiðigjald sem fyrrverandi ríkisstjórn lagði upp með og standi undir því og gott betur.