142. löggjafarþing — 6. fundur,  14. júní 2013.

veiðigjald.

15. mál
[15:58]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að biðjast afsökunar á orðfæri mínu, ég ávarpaði hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur í 2. persónu sem ég á ekki að gera og ég biðst fyrirgefningar á því.

Það er dálítið erfitt að eiga orðastað við fólk um tölur sem eru fengnar í fjölmiðlum. Ég leitaði eftir þeim tölum á opinberum vef Hagstofunnar sem er með afkomuupplýsingar, að vísu ársgamlar, nýjar upplýsingar koma ekki fyrr en seinna á þessu ári. Ég tel því rétt í þessari umræðu að menn haldi sig við þær opinberu upplýsingar sem til eru og hafi einnig nokkuð skýrari hugtakanotkun, eins og þetta með umframhagnað. Ég hef fengist við hagfræði í 40 ár og ég hef aldrei getað fundið (Forseti hringir.) hlutlæga skýringu á því fyrirbæri.