142. löggjafarþing — 7. fundur,  18. júní 2013.

ríkisfjármál.

[13:32]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Hún heldur áfram, leitin að stefnu ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum. En okkur tókst með miklum eftirgangsmunum í þingsal í síðustu viku að kreista upp úr hæstv. fjármálaráðherra yfirlýsingu þess efnis að hann ætlaði að gera atrennu — ég endurtek, gera atrennu — að því að ná jöfnuði í ríkisfjármálum í fjárlagafrumvarpi í haust.

Hann boðaði hins vegar, ásamt hæstv. forsætisráðherra, til blaðamannafundar í síðustu viku þar sem þeir lýstu því yfir að þeir væru búnir að finna afar stórt gat. Þeir hafa síðan ekkert gert til að minnka það gat heldur frekar aukið það með því að afturkalla skattahækkanir sem mögulega hefðu getað hjálpað til við að loka gatinu.

Því er óhjákvæmilegt að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra — þar sem hann hefur áður, í júlímánuði í fyrra svo að ég taki það nákvæmlega fram, lýst því sem veruleikafirringu að vera ekki tilbúinn að skera niður í velferðarkerfinu til að ná jöfnuði í ríkisfjármálum — hvernig hann tekur þessa atrennu.

Hvaða fyrirmæli hafa verið gefin til ráðherra í ríkisstjórninni um niðurskurð og undirbúning hans? Er búið að leggja ákveðnar línur um hvar eigi að skera niður í velferðarkerfinu? Er búið að segja nákvæmlega hve mikið eigi að skera niður í almannatryggingakerfinu, í heilbrigðiskerfinu, í menntakerfinu, í löggæslunni? Eða ætlar hæstv. fjármálaráðherra að hækka skatta á venjulegt fólk til að borga fyrir skattalækkun á stórútgerðina? Er það stefna hæstv. fjármálaráðherra að brúa bilið með því að hækka skatta á venjulegt fólk og fyrirtæki en létta sköttum af stórútgerðinni?