142. löggjafarþing — 7. fundur,  18. júní 2013.

breytt stefna Framsóknarflokksins í velferðarmálum.

[13:39]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra hvort hún taki undir skoðun hv. formanns fjárlaganefndar, Vigdísar Hauksdóttur, um breytta stefnu í velferðarmálum hjá Framsóknarflokknum og hvernig sú stefna er. Eftirfarandi ummæli voru höfð eftir hv. formanni fjárlaganefndar í RÚV 14. júní, með leyfi forseta:

„Vinstri stefna gengur út á það að koma sem flestum á bætur sem dæmi og að það sé verið að flytja til fjármagn með skatttekjum ríkisins og svo eru það alltaf einhverjir háir herrar sem deila því út aftur til baka. Það er svona stefna sem er rekin í þágu Evrópusambandsins sem er ekkert annað er risastór félagsmálastofnun. Þannig að þessari leið ætlum við framsóknarmenn að fara af.“

Mig langar að spyrja: Telur hæstv. ráðherra að unnið hafi verið markvisst að því gegnum árin, með stuðningi Framsóknarflokksins, að koma sem flestum á bætur af einhverjum toga sem ekki hafa haft þörf fyrir stuðning af hálfu velferðarkerfisins? Telur hæstv. ráðherra að sú velferðarstefna sem rekin hefur verið í landinu sé vinstri stefna sem Framsóknarflokkurinn vill hverfa frá og taka upp hægri stefnu með aðrar áherslur í velferðarmálum? Og telur hæstv. ráðherra að of hátt hlutfall skatttekna fari í bætur almannatrygginga, barnabætur, vaxtabætur og örorkubætur? Ef svo er, hvar ætlar Framsóknarflokkurinn að draga úr stuðningi í þessum málaflokkum ef það er meiningin?