142. löggjafarþing — 7. fundur,  18. júní 2013.

breyting á lögum um veiðigjöld.

[13:57]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið, svo langt sem það nær. Það er þá ljóst að í hans huga var fullt samráð haft við veiðigjaldsnefndina, hann fullyrðir það a.m.k. hér. Hins vegar var því ekki svarað sérstaklega með tekjurnar hverjar þær hefðu orðið miðað við bætta afkomu í greininni, en ég hef ástæðu til að ætla að þar hefðu verið kannski 3–4 milljarðar í viðbót í tekjum.

Hæstv. ráðherra sagði líka að það hefði verið fyrirsjáanlegt að það þing sem nú er að störfum, óháð því hvaða ríkisstjórn hefði verið við völd, mundi ræða veiðigjöld. Það kann vel að vera rétt en það er ekki víst að menn hefðu þá verið að ræða um 10 milljarða kr. afslátt af veiðigjöldunum ef einhver önnur ríkisstjórn hefði verið við völdin og það er það sem verið er að gera hér og nú.

Þegar ráðherrann segir að lögin hafi ekki verið framkvæmanleg og leita hefði þurft einhverra heimilda til að skjóta styrkari stoðum undir stofnanir sem þurfa að afla upplýsinga þá liggur nú fyrir frumvarp á dagskrá í dag um Hagstofuna. Það hefði kannski verið hægt að fara þá leið og afla þeirra heimilda (Forseti hringir.) sem ráðherrann telur nauðsynlegar án þess að gefa milljarða á (Forseti hringir.) milljarða ofan í afslátt af veiðigjaldinu.