142. löggjafarþing — 7. fundur,  18. júní 2013.

breyting á lögum um veiðigjöld.

[13:58]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Það er einfaldlega þannig, eins og hv. þingmaður endaði hér ræðu sína, að tala um hvort ekki hefði verið hægt að gera breytingar á lögum um Hagstofuna, að þá verður aftur að leita í smiðju fyrrverandi sjávarútvegsráðherra og spyrja: Af hverju var ekki búið að því? Þær upplýsingar lágu fyrir frá veiðigjaldsnefnd allt frá því í desember 2012 að ekki yrði hægt að leggja veiðigjald á samkvæmt þeim lögum sem fyrrverandi ríkisstjórn kom með inn í þingið og keyrði í gegn á vordögum 2012, í hálft ár. Þess vegna varð að bregðast við. Það var sem sagt ekki hægt, (Gripið fram í.) ég vil upplýsa hv. þingmann, og þess vegna leituðum við annarra leiða.

Það er líka rétt hjá hv. þingmanni að væri sú ríkisstjórn sem áður sat við völd hefði hún væntanlega haldið áfram á sömu braut og dregið allan mátt úr nýsköpun og fjárfestingargetu sjávarútvegsins hringinn í kringum landið með tilheyrandi landsbyggðarskatti sem (Forseti hringir.) núverandi ríkisstjórn er einmitt að snúa við til þess að nýsköpun og fjárfesting (Forseti hringir.) fari af stað en engu síður skili sjávarútvegurinn góðum tekjum í ríkiskassann.