142. löggjafarþing — 7. fundur,  18. júní 2013.

dreifiveita og raforka til garðyrkjubænda.

[14:00]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra varðandi orkukostnað ylræktarstöðva.

Íslenska grænmetið er á margan hátt einstök afurð sem framleidd er í hreinu og heilnæmu umhverfi með sjálfbærum orkugjöfum. Ylrækt er í örum vexti. Hún er atvinnuskapandi og gjaldeyrissparandi grein sem þarf að vaxa og skapa fleiri betur launuð störf í framtíðinni. Ég efast ekki um að við viljum öll styðja við bakið á þeirri þróun og framleiðslu vörunnar.

Ylræktarstöðvar kaupa mikla orku til starfseminnar. Rafmagnskostnaður ylræktar hefur hækkað langt umfram vísitölu en þar munar mestu um kostnað við dreifingu en á þeim markaði ríkir engin samkeppni. Orkukostnaðurinn hefur hins vegar hækkað minna vegna samkeppni á þeim markaði.

Í uppsveitum Árnessýslu hefur nú verið stofnað félag sem hefur það að markmiði að tryggja notendum sínum orku á lægra verði en almennt gerist á raforkumarkaði í dag. Frá árinu 2008 hefur rafmagnskostnaður ylræktarstöðva hækkað um 43% en vísitalan um 23% samkvæmt þeim upplýsingum sem mér voru gefnar. Það er nú til skoðunar að félagið reisi sérstakt dreifikerfi við hlið dreifikerfis Rariks sökum þess að sú gjaldskrá sem Rarik notast við er óhagstæð fyrir greinina og tekur ekki tillit til þess að um er að ræða stórnotendur sem kaupa mjög mikla orku. Samkvæmt upplýsingum sem ég hef gæti slíkt dreifikerfi kostað um 600 millj. kr. ef það yrði greitt niður á innan við áratug og verið töluverð kjarabót fyrir garðyrkjubændur. Hér er verkefni sem þarf að skoða sem fyrst.

Ég spyr því hæstv. ráðherra hvort hún telji ekki óeðlilegt að það geti verið hagstæðara að byggja sjálfstæða dreifiveitu með ærnum tilkostnaði og umhverfisáhrifum við hlið núverandi dreifikerfis sem allt er í eigu ríkisins og hvort til greina komi að ganga til samninga við garðyrkjubændur á þeim grunni sem þeir hafa óskað um lækkun kostnaðar.

Eins spyr ég hæstv. ráðherra hvort (Forseti hringir.) ekki sé rétt að ríkisstjórnin beiti sér fyrir því að gera sérstaka gjaldskrá fyrir orkusækin (Forseti hringir.) smá og millistór fyrirtæki í ylrækt og þörungarækt, (Forseti hringir.) um leið gæti ríkisstjórnin sent skýr skilaboð til minni og meðalstórra fyrirtækja (Forseti hringir.) um stuðning við greinina.