142. löggjafarþing — 7. fundur,  18. júní 2013.

áherslur nýrrar ríkisstjórnar í ríkisfjármálum.

[14:12]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Eins og aðrir þakka ég líka fyrir að þessi umræða fari fram vegna þess að það skiptir máli að fara vandlega yfir þessa stöðu. Fráfarandi ríkisstjórn lagði mjög mikið á sig til að loka stóru fjárlagagati, upp á 216 milljarða, sem hún tók við á síðasta kjörtímabili. Það var ekki gert út í bláinn, það var gert vegna þess að undirstaða þess að við getum farið að spretta úr spori sem samfélag er að ríkisvaldið standi sig og loki fjárlagagatinu. Eingöngu þannig getum við farið að horfa til afnáms hafta og eingöngu þannig getum við farið að horfa til alvöruvaxtar í íslensku samfélagi. Þess vegna var þetta hjartað í efnahagsstefnu fráfarandi ríkisstjórnar.

Nú lítur út fyrir að sú ríkisstjórn sem nýlega er tekin við, ríkisstjórn hægri flokkanna, ætli að víkja af þeirri braut. (Gripið fram í.) Allt lítur út fyrir það og við því þurfum við að fara að fá svör. Allar aðgerðir hennar hingað til og allt sem sagt hefur verið bendir til þess og segir okkur að ríkisstjórnin ætli sér ekki að standa við áætlanir um að byrja að greiða niður skuldir strax á næsta ári. Það þykir mér metnaðarleysi og ekki síst þegar menn eru hér að draga fram liði sem ástæður fyrir því að þeir telji sig ekki geta þetta, sem eru liðir sem ríkisstjórnir á hverjum einasta tíma þurfa að vinna að að halda innan ramma fjárlaga, þ.e. að stofnanir og fjárlagaliðir haldist á áætlun. Ég vorkenni þessari ríkisstjórn ekkert að þurfa að kljást við það verkefni þó að hún kveinki sér undan því en það er ríkisstjórnar á hverjum tíma að tryggja að menn fari ekki fram úr.

Virðulegi forseti. Árangurinn hefur verið þó nokkur hingað til og mér þykir mjög miður ef menn ætla að fara að víkja af þessari braut. Ávöxtunarkrafa og álag fyrir Ísland hefur farið lækkandi vegna aukinnar tiltrúar á Íslandi út af aðgerðum í ríkisfjármálum. Það er óumdeilt og sú óvissa sem ummæli forustumanna nýrrar ríkisstjórnar hafa skapað er óþolandi, hún er óþolandi fyrir þá aðila sem þurfa til dæmis að fjármagna sig erlendis. Þetta er óþolandi fyrir íslenskt atvinnulíf og út úr þessari óvissu þurfum við að komast. Við þurfum að fara að fá skýr svör um það á hvaða braut menn ætla að halda sig.

Forustumenn hæstv. ríkisstjórnar stigu út úr stjórnarmyndunarviðræðunum með miklar yfirlýsingar um að þeir hefðu fundið risastórt gat á fjárlögum. Þegar við gengum til kosninga, ríkisstjórnarflokkarnir fyrrverandi, þá var það algjörlega klárt, við sögðum það, að við gátum ekki lofað neinu vegna þess að staðan í ríkisfjármálum væri enn þá viðkvæm. Staðan var í járnum og hún er enn í sömu járnum. Það þarf vinnu til að halda sér innan ramma fjárlaga og það þarf að leggja ýmislegt á sig til að ná þeim markmiðum. En mér heyrist á öllu að hæstv. ríkisstjórn ætli ekki að leggja það á sig sem til þarf.

Virðulegi forseti. Ég velti því líka fyrir mér hvers vegna ný ríkisstjórn og forustumenn hennar leggja svona mikið á sig og fara í þann leiðangur að tína til mjög sérstaka þætti ríkisfjármálanna, sem ávallt má telja til veikleika, til þess að búa þetta gat til. Ég velti því fyrir mér hvort menn séu með þessu að undirbúa samfélagið og markaðina undir afleiðingar þess að auðlindagjaldið á sjávarútveginn verði lækkað um 6,4 milljarða á ársgrundvelli eins og liggur fyrir hér í þinginu og undir afleiðingar þess að auðlegðarskattur og önnur slík gjöld verði afnumin.

Virðulegi forseti. Það er ekki að spyrja að forgangsröðun ríkisstjórnarinnar. Öllu fögru var lofað fyrir heimilin. Núna er það svo flókið að það þarf að setja þetta allt í nefnd en mönnum þykir ekki jafn flókið að koma hér inn með lækkanir upp á 6,4 milljarða á sjávarútveginn eða yfirlýsingar um að auðlegðarskatturinn verði ekki framlengdur. Það þykir mönnum hið einfaldasta mál. Þessi stefna núverandi ríkisstjórnar mun hafa mjög alvarlegar afleiðingar ef ekki verður horfið frá henni og aftur farið inn á þá braut að loka fjárlagagatinu og fara að greiða niður skuldir.

Jákvæðar fréttir berast úr fjármálaráðuneytinu samhliða blaðamannafundum ríkisstjórnarinnar sem eru þær að við erum á áætlun. Ég sé því ekki að verkefnið ætti að vera nýrri ríkisstjórn erfitt, það er að segja að halda áfram á þeirri braut að ná jöfnuði og hefja niðurgreiðslu skulda. Nú þurfum við að fá skýr svör frá hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra: Hvenær ætla menn að byrja niðurgreiðslu skulda ríkisins?