142. löggjafarþing — 7. fundur,  18. júní 2013.

áherslur nýrrar ríkisstjórnar í ríkisfjármálum.

[14:18]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég fagna því að fá tækifæri til að ræða stöðuna í ríkisfjármálum í sérstakri umræðu hér á þinginu, þakka fyrir að tekinn hafi verið frá tími til þess. Ég fagna tækifærinu til að eiga orðastað við þá sem sérstaklega hafa viljað tjá sig um þessi mál og spyrja okkur sem nýtekin erum við spurninga. Menn geta haft skoðanir á því hvort tilefni hafi verið til að taka saman stöðuna eins og við ákváðum að gera, ég og forsætisráðherra, og efna til blaðamannafundar til að skýra frá því hvar við stöndum í dag. En við töldum rétt, skynsamlegt, eðlilegt og bara heiðarlegt að gera það og við höfum tiltekið sérstaklega þá þætti sem við teljum að hafi verið merki um ákveðna veikleika þegar við komum í Stjórnarráðið.

Hér hefur verið komið inn á að mjög miklar sveiflur geti orðið í innheimtumálum hjá ríkissjóði og eftir fjóra mánuði geti staðan litið öðruvísi út en eftir þrjá mánuði. Það kann vel að vera rétt en þegar saman er tekið verður ekki komist hjá því að viðurkenna veikleikana sem við blasa og þeir liggja til að mynda í því að teknar hafa verið nýjar ákvarðanir eftir að fjárlög voru samþykkt sem munu leiða til útgjaldaauka. Hér hefur verið gert ráð fyrir að við mundum hafa tekjur af arði og sölu eigna í fjármálafyrirtækjum sem munu ekki ganga eftir og það gildir ekki bara fyrir þetta ár heldur líka næsta ár. Ekki er heldur hægt að horfa fram hjá því að staðan blasir þannig við okkur, þegar við komum að málum, að það stefni í talsvert mikla framúrkeyrslu. Þá erum við að horfa til þess að það stefni í framúrkeyrslu hjá stofnunum ríkisins á þessu ári upp á kannski 6 milljarða ef ekkert verður að gert. Það er þá til viðbótar við uppsafnaðan vanda sem víða er hjá stofnunum ríkisins. Þannig bætist sá vandi við þann sem var fyrir.

Við töldum rétt að nefna þetta strax og við áttuðum okkur á því hvernig staða ríkissjóðs er. Við höfum jafnframt bent á að búast megi við því að gjaldfæra þurfi framlagið til Íbúðalánasjóðs sem gert er ráð fyrir í fjárlögum sem eigin fjárframlagi til sjóðsins, að vegna bágrar stöðu hans stefni í að gjaldfæra þurfi það framlag að fullu á yfirstandandi ári. Ef mönnum þykir þessi umræða óþægileg þá verður bara svo að vera en svona blasir staðan við okkur.

Hér er mikið talað um að ný ríkisstjórn taki við alveg sérstaklega góðu búi og að mikill árangur hafi náðst. Hallinn á ríkissjóði á yfirstandandi ári er sannarlega mun minni en hann var þegar fráfarandi ríkisstjórn tók við. Það er alveg rétt. Það voru mjög erfiðar aðstæður sem menn tóku við á þeim tíma en hins vegar er ekki hægt að horfa fram hjá því, ef menn vilja á annað borð tala um árangur, hvernig tekist hefur á undanförnum árum að standast fjárlög og það er það sem við ræddum á blaðamannafundinum sem menn láta fara í taugarnar á sér.

Stefnir í að fjárlög standist? Þau stóðust ekki fyrir árið 2009, ekki fyrir árið 2010, ekki fyrir árið 2011 og ekki heldur fyrir árið 2012. Árið 2011 sagði fráfarandi ríkisstjórn að hún væri búin að ná frumjöfnuði. Það stóðst ekki, það vantaði nokkra tugi milljarða upp á. Samtals er hallinn á ríkissjóði upp undir 400 milljarðar frá árinu 2009, uppsafnað, og verulega mikið vantar upp á það á hverju einasta ári að áætlanir í ríkisfjármálum gangi eftir.

Þessi staða virðist enn og aftur vera uppi á teningnum, það er að segja menn ganga frá fjárlögum undir lok árs þar sem of mikillar bjartsýni gætir og síðan slá menn sér upp á forsendum áætlana sem aldrei hafa gengið eftir. Þeir koma ár eftir ár og benda á árangurinn sem er fyrst og fremst skriflegur í skjölunum en ekki í raunveruleikanum þegar upp er staðið. Mér finnst ekki nema eðlilegt að þetta sé tiltekið hér sérstaklega.

Það vekur líka athygli mína þegar verið er að færa fram athugasemdir vegna fram kominna frumvarpa frá ríkisstjórninni, sem er nýtekin við, og menn segja að muni leiða til verri afkomu ríkissjóðs, að á sama tíma koma fram frumvörp frá hinum sömu sem munu líka leiða til aukinna útgjalda ríkissjóðs. Ég nefni til dæmis nýframkomið frumvarp frá þingmönnum Samfylkingarinnar um endurbætur á almannatryggingakerfinu sem mun kalla á stigvaxandi útgjaldaauka. Þegar hann verður að fullu kominn til framkvæmda má gera ráð fyrir að útgjöld vaxi um 20 milljarða á ári; og ekki hefur verið lögð nein sérstök vinna í að útskýra hvernig ríkið eigi að mæta þeim mikla útgjaldaauka sem í því fælist.

Hér er spurt að því hversu stórt gatið verði á árinu 2014. Þetta er kjarni þeirrar vinnu sem við erum rétt að hefjast handa við að fara í, það er að segja að koma saman fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2014. Það frumvarp verður lagt fram í haust. Ég skil vel að menn vilji helst fá það í dag eða á morgun en það verður ekki til nema með sameiginlegu átaki allra ráðuneyta og eftir mjög mikla vinnu í fjármálaráðuneytinu eins og alltaf hefur átt við. Ég get því ekki svarað þeirri spurningu hér og nú með öðrum hætti en þeim sem ég gerði hér í þingsal í síðustu viku, þ.e. að við munum leggja okkur öll fram um að lágmarka hallann og reyna að halda við markmiðið um hallalaus fjárlög á árinu 2014. En það er mun meira krefjandi verkefni en ég hefði fyrir fram ætlað, m.a. vegna þeirra veikleika sem ég hef farið hér yfir.

Sá vandi sem við glímum við verður ekki leystur með sífellt meiri skattbyrði og efnahagsvandinn sem við glímum við er ekki heldur bundinn við Ísland eitt. Þetta er sameiginlegt vandamál margra Evrópuríkja og segja má að um sé að ræða sameiginlegan vanda víða um heim. Þessi vandi er nú til umræðu á fundi leiðtoga G8-ríkjanna á Norður-Írlandi. Send var ályktun frá þeim fundi eftir umræður morgunsins. Þar er lögð áhersla á peningastefnu sem treystir stöðugleika og uppbyggingu, það vill ríkisstjórnin jafnframt gera. Þar er lögð áhersla á að ná jafnvægi í ríkisbúskap til lengri tíma, við stefnum að því að gera það líka. Þar er einnig lögð áhersla á kerfisumbætur til að bæta sjálfbæran vöxt og lífskjör til langs tíma, sem er mjög í samræmi við það sem segir í stjórnarsáttmálanum.

Leiðtogar G8-ríkjanna leggja áherslu á samkeppnishæfni, á mikilvægi þess að halda lánaleiðum vel virkum til að greiða fyrir fjárfestingu og á að auka traust. Allt eru þetta liðir sem við í nýrri ríkisstjórn viljum leggja sérstaka áherslu á. Og á þessum fundi G8-ríkjanna er sérstaklega rætt um mikilvægi vaxtar. Mér sýnist, þegar við horfum til baka, að sú hagræðing sem átt hefur sér stað í ríkisrekstrinum, eða það aðhald sem stundað hefur verið, hafi skilað þó nokkuð miklum árangri.

Ég hef deilt á það með hvaða hætti það aðhald var framkvæmt, það hafi um of verið á framkvæmdahliðinni og of lítið á rekstrarhliðinni. En heilt yfir hefur tekist ágætlega að halda útgjaldavextinum sæmilega í skefjum. Á tekjuhliðinni vantar hins vegar verulega mikið upp á. Ef áætlanir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefðu gengið eftir, ef okkur hefði tekist að skapa hvetjandi umhverfi á Íslandi, ef við værum laus úr viðjum haftanna, gjaldeyrishaftanna, ef okkur hefði tekist að hvetja menn áfram til nýrrar fjárfestingar — peningarnir eru vissulega til staðar, við sjáum það til dæmis á því sem er að gerast á verðbréfamörkuðum — ef okkur hefði tekist þetta hefði hugsanlega verið hér aukinn hagvöxtur. Og hvaða staða væri þá uppi? Ef hagvaxtarspár hefðu gengið eftir, væntingar um hagvöxt þessi ár sem nú eru nýliðin, værum við ekki að ræða um neitt fjárlagagat. Þá værum við búin að ná þessum jöfnuði. Vandinn liggur fyrst og fremst tekjumegin og það er þess vegna sem við leggjum svo mikla höfuðáherslu á að senda réttu skilaboðin út í samfélagið til þess að ná þessari fjárfestingu fram, fjárfestingu sem er algjörlega í frystinum í stórum atvinnugreinum eins og til dæmis í sjávarútvegi.

Það hefur líka verið of lítil fjárfesting í orkufrekum iðnaði, við komum hingað í þingið með frumvarp sem snertir ferðaþjónustuna og samkeppnishæfni hennar. Við höfum fengið gagnrýni fyrir að gefa af tekjum ríkissjóðs, eins og sumir vilja orða það, en í okkar huga erum við að bæta samkeppnisstöðu mikilvægrar greinar. Menn geta horft á virðisaukaskattinn og sagt: Ja, við hefðum frekar viljað fá 14% af gistingunni. En við erum að skoða þetta í miklu stærra samhengi. Við erum að reyna að viðhalda samkeppnishæfni greinar sem mun skila tekjum eftir mjög mörgum öðrum leiðum en virðisaukaskattinum. (Forseti hringir.) Í því stóra samhengi munum við vinna að ríkisfjármálaáætlun okkar sem verður lögð fram í haust.