142. löggjafarþing — 7. fundur,  18. júní 2013.

áherslur nýrrar ríkisstjórnar í ríkisfjármálum.

[14:46]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég hef lagt það í vana minn að reyna að skilja áður en ég mynda mér miklar skoðanir. Þegar kemur sérstaklega að skattamálum get ég ekki stært sjálfan mig af því að vera einhver sérstakur vinstri maður, ég hef jafnvel kallað sjálfan mig hægri mann, alla vega þegar ég er í vondu skapi. En þegar kemur að fyrstu aðgerðum ríkisstjórnarinnar, sérstaklega með hliðsjón af því að afskaplega lítið er um efnislegar upplýsingar enn sem komið er, þykir mér aðgerðirnar mjög skrýtnar. Þótt 1,5 milljarðar á ári sé kannski ekki jafn hrikaleg tala og 6,4 milljarðar á ári, hefur mér þótt erfitt að skilja nákvæmlega hvað vakir þar fyrir mönnum. En ég held að ég sé búinn að fatta það.

Ég held ég sé búinn að fatta hvers vegna það eigi að taka til baka þessa skattahækkun, virðisaukaskattshækkunina á ferðaþjónustuna. Ég held ekki að það sé gert til að sýna sérstaka ábyrgð. Ég held ekki að það sé út af hugmyndafræðilegum ágreiningi eins og oft hefur verið látið í veðri vaka í fjölmiðlum. Ég held ekki að það sé til að auka fjárfestingu eða eitthvað slíkt. Ég held að það sé eingöngu til þess að uppfylla kosningaloforð.

Það er alltaf gaman að saka andstæðinga sína um að svíkja kosningaloforðin, en í þessu tilfelli þykir mér frekar verra að þau séu efnd vegna þess að í ferðaþjónustunni er gullæði í gangi. Það er nóg af fjárfestingu í ferðaþjónustunni. Hún er í uppsveiflu. Hefur verið í uppsveiflu mjög lengi og allt bendir til þess að hún verði áfram í uppsveiflu.

Ef einhvers staðar er ráð að hafa þolanlegan virðisaukaskatt, og 14% skattur er alveg þolanlegur virðisaukaskattur, er það í ferðaþjónustunni. Það er oft svigrúm til þess að lækka skatta. Oft getur það aukið hagvöxt og fjárfestingu o.s.frv., en ég get ekki ímyndað mér — og það má gjarnan hver sem er fræða mig um það — verri stað til þess að lækka skatta á verri tíma en akkúrat núna. Við sjáum ekki enn þá fram á það hvernig eigi að fylla upp í fjárlagagatið. Við sjáum ekki fram á það. Og þá ætlum við að taka af 14% skatt, sem ég ítreka að er hóflegur skattur, mjög hóflegur skattur í alþjóðlegu samhengi. 25,5% er ekki mjög hóflegur skattur í alþjóðlegu samhengi. Það vær nær að ráðast á virðisaukaskatta þar sem þeir eru háir, kannski í iðnaði sem er ekki í jafn mikilli blússandi uppsveiflu.

Mér þykir þetta stórfurðulegt, þ.e. ef ég gef mér að markmiðin séu að auka fjárfestingu. Það stemmir einfaldlega ekki að markmiðið sé að hjálpa greininni. Það stemmir ekki, hún þarf enga hjálp, hún er í uppsveiflu, það gengur vel.

Nú veit ég ekki alveg hversu mikill Keynes-maður hæstv. fjármálaráðherra er í raun og veru, en þegar kemur að því að hækka og lækka skatta finnst manni frekar augljóst að það beri að hækka skatta þegar árar vel til að vera tilbúinn fyrir t.d. efnahagshrun, hæstv. forsætisráðherra. Hvernig væri að vera tilbúinn undir einhver slík áföll? En í staðinn, nú þegar við erum komin upp úr niðursveiflunni, við erum á leiðinni upp aftur, ætlum við að lækka skattana á þeim tíma sem við ættum að vera að spara. Við erum að eyða peningum þegar við ættum að vera að spara þá. Það þýðir að við þurfum að spara þá þegar við ættum að eyða þeim. Við hefðum átt að geta eytt þeim þegar hrunið var en gátum það ekki. Hvers vegna? Vegna þess að það hafði ekki verið sýnd þessi svokallaða efnahagslega ábyrgð, sem er að spara áður en maður þarf að nota peningana. Hvenær byggði Nói örkina? Áður en rigndi.

Ég ætla ekki að fjölyrða meira um þetta, nema um það þegar talað er um efnahagslega ábyrgð. Ef við ætlum að sýna ábyrgð getum við ekki leyft okkur endalaust að eltast við þau kosningaloforð sem við höfum gefið, sérstaklega ef þau hafa verið gefin í einhvers konar offorsi. Ef við ætlum að sýna ábyrgð þurfum við að hafa aga á sjálfum okkur, sjálfsaga. Það þýðir að stundum þurfum við að hækka skatta. Þegar 90 milljarðar kr. á ári eiga að fara í vexti eina saman þá, fyrirgefið, þurfum við að hækka skatta. Það er ekki vegna þess að það sé gaman, ekki vegna þess að við séum vinstri menn heldur vegna þess að það er einföld stærðfræði. Þetta er ekki mjög flókið.

Þegar kemur að því að auka hagvöxt með skattalækkunum — allt í lagi, það gæti virkað, kannski til fimm eða tíu ára, sérstaklega í iðnaði sem væri í niðursveiflu. Þessi iðnaður er í uppsveiflu. Þetta meikar ekki sens. Afsakið, virðulegi forseti. Þetta er ekki rökrétt.