142. löggjafarþing — 7. fundur,  18. júní 2013.

áherslur nýrrar ríkisstjórnar í ríkisfjármálum.

[15:23]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Vá, hvað þetta er skringilegt, það hefur verið hlutverkaskiptaleikur hérna. Ég man eftir þessu síðast líka, þá var hlutverkaskiptaleikur og nú eru allir komnir í akkúrat gagnstæð hlutverk.

Ég vona að ég detti ekki inn í það, ég var reyndar ekki í neinu hlutverki síðast. Mig langar svolítið að rifja upp að ég mælti mikið fyrir því ásamt félögum mínum í Hreyfingunni að við mundum reyna að skilgreina okkur, ekki endilega sem andstæðinga, stjórnarandstæðinga, það gefur strax neikvæðan tón. Við reyndum alltaf að starfa út frá málefnunum og ég vona að þetta þing muni gera það, starfi út frá málefnunum en setji sig ekki sjálfkrafa í stellingar andstöðu. Það á bæði við um stjórnarmeirihlutann og minni hlutann. Ekki það að ég ætli að vera með einhvern siðferðipistil yfir þingmönnum.

Ég geri mér grein fyrir því að allar ríkisstjórnir leggja af stað með góð fyrirheit og það er mjög margt gott, ef maður skoðar heildrænt yfir, sem kemur frá hverri ríkisstjórn og svo er líka margt sem maður er ekki sáttur við. Ég hef enn ekki séð nægilega skýr fyrirheit frá þessari ríkisstjórn um hvernig hún ætlar að framkvæma það sem hún lofaði. Það verður að viðurkennast að þegar maður blandar saman loforðapakka Framsóknar- og Sjálfstæðisflokksins er hann gríðarlega metnaðarfullur og skilur eftir rosalega stórt gat í fjárlögunum, aukagat. Ég hef áhyggjur af því.

Ég hef áhyggjur af því hvar á að taka þessa peninga. Ég vona og beini því til hæstv. fjármálaráðherra að tryggja að ekki verði skorið meira niður í heilbrigðiskerfinu því að heilbrigðiskerfið þolir það ekki. Það þarf að gefa í í heilbrigðiskerfinu því að heilbrigðiskerfið okkar er orðið svo götótt að það er hrunið sums staðar. Íslendingar eru ánægðir með að fá borga skatta ef þeir fá grunnþjónustu og við verðum að tryggja að grunnþjónustan okkar bresti ekki, eins og við sem vorum í minni hluta síðast bentum gjarnan á. Ég vil því sem minni hluti núna beina því til meiri hlutans og þeirra þingmanna sem ræddu hvað hæst um þetta að þeir sýni að þeir hafi meint það. Ég bið meiri hlutann um að sýna í verki að þeir hafi meint það sem þeir gagnrýndu síðast. Það er mjög mikilvægt.

Síðan langar mig líka aðeins að benda á að það hefur mjög mikið komið fram sem ég er sammála. Mér finnst til dæmis hugmynd hv. þm. Guðmundar Steingrímssonar um tryggingagjaldið mjög góð, það mætti vissulega skoða hana. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort það hafi komið til athugunar. Ég hef áhyggjur af veiðigjaldinu og mér finnst það svolítið óskýrt. Sumir þingmenn, þar á meðal hv. þm. Eygló Harðardóttir, hafa sagt að það sé í raun og veru ekki verið að lækka þetta gjald heldur eigi að laga það. Gæti ég fengið betri útskýringu á því hvað það þýðir allt saman? Það er mjög mikið misræmi milli þess sem er sagt, hvernig þetta er útskýrt í fjölmiðlum og gagnvart þinginu. Það væri mjög gagnlegt að fá skýra mynd af því hvað það þýðir ef lækka á veiðigjaldið. Ég vil gjarnan upplýsa þingheim um að sett var af stað undirskriftasöfnun fyrir um 19 klukkutímum, og síðast þegar ég gáði höfðu um 7.200 manns kvittað undir hana, þar sem er farið fram á að veiðigjaldið verði ekki lagt af eða því breytt, því verði haldið óbreyttu. Ég hafði ekkert með undirskriftasöfnunina að gera en mér var sendur hlekkur á hana og að sjálfsögðu kvittaði ég undir.

Síðan langar mig líka að spyrja, og það hafa aðrir gert en ég vil ítreka það: Hvernig á að brúa þetta risastóra gat, hvernig á að stoppa upp í það? Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera? Á að vera niðurskurður? Hvernig ætlið þið að afla þessara tekna?