142. löggjafarþing — 7. fundur,  18. júní 2013.

áherslur nýrrar ríkisstjórnar í ríkisfjármálum.

[15:34]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þá góðu umræðu sem hér hefur átt sér stað í dag og mikilvægu og gott að við skulum öll setjast vandlega yfir þessi mál og rekja okkur í gegnum þessa stöðu.

Margt skemmtilegt kom fram eins og t.d. að fyrrverandi þingmaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, hv. þm. Ásmundur Einar Daðason, sé farinn að tala fyrir því að rekum íslenskt samfélag eins og bandarískt stórfyrirtæki. Það er nýlunda fyrir mér og ég vona að við förum ekki að gera það. Við megum ekki gleyma því, við sem sitjum hér á þingi, að við erum að reka samfélag fyrst og fremst. Það er verkefnið, við erum að reka samfélag. Það er hold og blóð í öllu því sem við gerum og snertum við og þess vegna verðum við að vanda okkur. Það eigum við að hafa að markmiði í öllu því sem við gerum.

Virðulegi forseti. Hér kom líka fram að menn væru hissa á því að við værum hissa yfir gati sem væri að birtast í fjárlögum. Það er ekki svo. Það sem við erum hissa á í þessari umræðu, og höfum verið hissa á í umræðunni undanfarna daga, er að menn skuli yfir höfuð vera hissa, þ.e. þeir sem eru að taka við stjórninni í þessu landi. Við töluðum um þessi mál, hversu staðan væri viðkvæm í ríkisfjármálunum, í aðdraganda kosninga. Við töluðum um það marga mánuði þar á undan og ég held að meira og minna allt síðasta kjörtímabilið hafi farið í að tala um hina erfiðu stöðu ríkisfjármálanna. Og það var ekkert þannig að við værum búin að veifa einhverjum töfrasprota og öll vandamál væru horfin rétt fyrir kosningar, það var ekki svo.

Við vorum hins vegar langt komin með og erum langt komin með að loka þessu gati en því er ekki lokið. Það er þeirrar ríkisstjórnar sem nú er að taka við, og menn mega ekkert vera hissa á því að vera með það verkefni í fanginu, að klára málið, þ.e. að klára málið á þann veg að við getum farið að snúa okkur að því að greiða niður skuldir. Menn geta ekkert verið hissa á því verkefni eða eins og hæstv. fjármálaráðherra sagði hér áðan að menn ætluðu að reyna að standa við hallalaus fjárlög en þetta væri meira krefjandi en menn gerðu ráð fyrir. Þá hafa menn bara ekkert fylgst með. Þeir 4 milljarðar sem til dæmis hafa verið nefndir út af breyttri hagvaxtarspá komu fram í byrjun ársins. Það er vitað ár eftir ár að það eru stofnanir sem eru í járnum og er hætta á að keyri fram úr. Þetta vita menn á hverju einasta ári, það er ekkert nýtt í því. Það er ekkert nýtt í neinu af því sem þeir tína hérna til.

Varðandi liðinn um söluhagnað þá hafa menn lengi ekki gert ráð fyrir neinum fjármálafyrirtækjum þar heldur er gert ráð fyrir eignasölu sem listuð er á öftustu síðu í fjárlagafrumvarpinu. Ég held því að hæstv. fjármálaráðherra ætti líka að fara að tala um hlutina eins og við skildum við þá en ekki einhverja gamla tíma.

Virðulegi forseti. Rætt hefur verið um agann, hversu mikilvægur hann sé, og að síðasta ríkisstjórn hafi ítrekað farið fram úr fjárlögum og áætlanir hafi ekki staðist. Þá er það hreinlega þannig — og ég ætla að fá að segja það einu sinni enn og vona að ég þurfi ekki að segja það aftur — að samfélagið fór á hliðina árið 2008 og ófyrirséð útgjöld urðu aftur og aftur, sérstaklega á fyrri hluta kjörtímabilsins.

Eru menn til dæmis búnir að gleyma því að Seðlabankinn varð gjaldþrota? Hann varð tæknilega gjaldþrota. Það þurfti að setja nærri því 100 milljarða í hann eða 90 milljarða ef ég man það rétt. Og ekki var beinlínis hægt að setja það inn í fjárlagafrumvarp. Við getum nefnt fleiri þætti þar sem fram komu svokallaðir óreglulegir liðir. Það var margt sem gerðist á þessu kjörtímabili sem fjármagn þurfti í og ríkið þurfti að fara í lántökur út af, sama hvort það var eiginfjárframlag eða beinlínis útgjöld.

Virðulegi forseti. Við erum í þeirri stöðu að vera með 90 milljarða sem við greiðum í vexti á hverju einasta ári. Fyrir hv. formann fjárlaganefndar bendi ég á myndbönd á alnetinu þar sem við ræðum þessi vandamál fyrir kosningar. Það var ekki þannig að við lægjum eitthvað á þeirri stöðu.

Mér þykir það því undarlegt — þegar ríkisstjórnin ákveður að koma fram með þessum hætti, að draga upp dökka mynd og halda því fram að hér hafi enginn vitað hver staðan er og um sé að ræða ný sannindi — að menn skuli á sama tíma leggja fram frumvörp sem búa til gat í fjárlögin upp á 6,4 milljarða, bara af veiðigjöldunum einum, og tala svo fyrir því að ætla ekki að endurnýja auðlegðarskattinn sem skilar 10 milljörðum (Gripið fram í: Ólöglegum.) í ríkiskassann árlega. Bara þetta tvennt eru 17 milljarðar, það er stærra en það gat sem menn voru að tala um á blaðamannafundinum um daginn, bara þessir tveir liðir sem (Forseti hringir.) þessi ríkisstjórn hefur boðað.

Það er því algjörlega klárt mál, virðulegi forseti, að þessi ríkisstjórn er að skapa slíka óvissu (Forseti hringir.) í ríkisfjármálunum að kallað er eftir því úti á markaðnum að menn fari að senda skýr skilaboð um að þeir ætli raunverulega að loka fjárlagagatinu og (Forseti hringir.) vera ábyrgir þegar kemur að ríkiskassanum.