142. löggjafarþing — 7. fundur,  18. júní 2013.

áherslur nýrrar ríkisstjórnar í ríkisfjármálum.

[15:40]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Hv. þm. Höskuldur Þórhallsson sagði að verkefnið væri að koma á aga í ríkisfjármálum og vitnaði í margar ræður sínar á fyrra kjörtímabili um hversu illa það hefði allt gengið.

Já. Er þetta byrjunin, er þetta aðferðin, er þetta upphafið að því að koma á aga í ríkisfjármálum? Við erum með á borðum okkar tvö frumvörp, sem er nú mestallt sem komið hefur frá ríkisstjórninni enn þá, sem afsala ríkissjóði á þessu og næsta ári 12 milljörðum kr. í tekjur. Þannig er það. 535 milljónir í ár vegna þess að fallið er frá áformum um að hækka virðisaukaskatt á hótelgistingu upp í 14%, 1,5 milljarðar á næsta ári, 3,2 milljarðar í töpuðum veiðigjaldstekjum á þessu ári og 6,4 eða 6,2 milljarðar á næsta ári. Samtals um 12 milljarðar á þessu ári og hinu næsta.

Er þetta upphafið að koma á aga í ríkisfjármálum að byrja svona? Eru fleiri frumvörp af þessu tagi í vændum áður en nokkrar mótvægisaðgerðir líta dagsins ljós eða fáum við nokkur svör um það? Á að mæta þessu með annarri tekjuöflun, á að skera niður á móti eða ætla menn að sætta sig við aukinn halla á ríkissjóði? Eitt af þrennu gerist þegar menn sleppa tekjum. Annaðhvort verða menn að afla tekna annars staðar í staðinn, menn verða að skera niður kostnað sem þessu nemur eða halli ríkissjóðs vex. Engin geimvísindi, ekkert svoleiðis, bara tekjur og gjöld, debet og kredit. Ekkert vúdú. Þetta er bara svona.

Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir nefndi réttilega að á fyrra kjörtímabili og þar af leiðandi í fjárlögum þessa árs er 5 milljarða varapottur vegna ófyrirséðra útgjalda. Í öllum þrengingum undanfarinna fjárlaga lokuðum við þeim alltaf þannig að það var borð fyrir báru vegna ófyrirséðra útgjalda og það kom sér vel. (Gripið fram í.) Það kom sér t.d. vel þegar ríkissjóður varð að taka á sig kostnað upp á á annan milljarð kr. vegna náttúruhamfara. Þá var það að sjálfsögðu tekið af þessum lið. Ríkisstjórnin mætti hafa í huga að hún fær þarna í hendur verulegan sjóð sem er til þess að mæta ófyrirséðum útgjöldum.

Það var talað um að fjáraukalög hefðu aukið útgjöld mikið miðað við fjárlög undanfarinna ára. Já, við skulum fara yfir það, við skulum skoða listann yfir það hversu mikið frávikið hefur verið að meðaltali síðustu tíu ár eða svo. Veruleikinn er sá að þrátt fyrir þessar ógnarlegu aðstæður í ríkisfjármálum undanfarin ár og óvissuna sem þeim tengdist hefur frávikið minnkað, farið niður í 1,5–2,5% frá fjárlögum í fjáraukalögum núna undanfarin þrjú, fjögur ár, en það var iðulega upp í 5% í góðærinu margrómaða.

Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra svaraði lykilspurningu dagsins: Verður staðið við markmiðið um hallalaus fjárlög á næsta ári? svona, og ég vona að ég hafi náð því rétt niður: „Við munum leggja okkur öll fram um að lágmarka hallann og reyna að ná hallalausum fjárlögum, en það verður mun meira krefjandi en við áttum von á.“

Þetta er þá svarið. Því miður er þetta svar þannig að ekki er lengur gengið út frá því sem ófrávíkjanlegu skilyrði að fjárlögin á næsta ári verði hallalaus. Það hryggir mig, það hryggir mig mjög. Hæstv. fjármálaráðherra var sanngjarn hvað það varðaði að hann viðurkenndi að tekist hefði vel til með að halda útgjöldum innan ramma, en það væru tekjurnar sem hefðu ekki skilað sér af því að hagvöxturinn hefði ekki orðið eins mikill á Íslandi og spáð var í árslok 2008 eða byrjun árs 2009 (Gripið fram í.) og stundum í fjárlögum eftir það.

Bíddu, hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, hvar hefur hagvöxtur í Evrópu orðið eins og honum var spáð í árslok 2008 eða 2009? Vita menn ekki í hvaða heimi við lifum? Djúpstæð efnahagskreppa hefur orðið viðvarandi sem hefur auðvitað marktæk áhrif á úrvinnslu hrunsins hér og hefur þyngt róðurinn og það er hún sem gerir hagvaxtarhorfurnar þyngri á þessu ári.

Varðandi það að lækka þurfi eða falla frá áformum um 14% virðisaukaskatt á hótelgistingu af samkeppnisástæðum þá get ég bara ekki, þó að tíminn sé naumur, látið svona vitleysu ómótmælt. Bíddu, er ferðaþjónustan í vanda, er hún að dragast saman? Er hún að tapa í samkeppni við einhverja aðra? Nei, er ekki ferðaþjónustan á Íslandi að vaxa meira en nánast nokkurs staðar annars staðar á byggðu bóli í bullandi sókn? Og bíddu, var ekki virðisaukaskattur 14% á ferðaþjónustu fram til 2007? Jú. Og var þá ekki raungengi krónunnar upp í 40% hærra en það er núna? Jú. Og er ekki raungengið meira en 20% undir langtímajafnvægisgengi? Jú. Er það virkilegt að samkeppnisstaða ferðaþjónustunnar sé samt svo slæm að þetta geti ekki gengið eftir? Ja, heyr á endemi.

Auðvitað mætti segja það sama um veiðigjöldin, það er algjörlega augljóst mál að stærstur hluti sjávarútvegsins a.m.k. þarf ekki á þeirri lækkun að halda. Við höfum viðurkennt að lagfæra megi útfærsluna og ef menn vilja hlífa eitthvað minni bolfisksfyrirtækjunum eru leiðir til þess en það þarf ekki að kosta 10 milljarða á þessu ári og hinu næsta.

Talandi um viðskilnaðinn þá var hallinn á ríkissjóði var 216 milljarðar 2008, 14,6% af landsframleiðslu. Tæpir 140 milljarðar 2009, minni en áætlað var, um 9% af landsframleiðslu. 123 milljarðar 2010, um 7% af landsframleiðslu. 89 milljarðar 2011, um 3,5% af landsframleiðslu. Segjum 30–35 milljarðar árið 2012, 1,5–2% af landsframleiðslu. (Forseti hringir.) 4 milljarðar samkvæmt gildandi fjárlögum þó að við tækjum 14 milljarðana fjármálaráðherrans í viðbót og bættum þeim við, 17, 18 milljarðar, um 1% af landsframleiðslu. (Forseti hringir.) Eru menn að væla undan þeim viðskilnaði að fá í hendur aðstöðu sem teiknar til 0,5–1% halla þegar við tókum við 14,5%?